Stæður brotnuðu í Kröflulínu 2 í óveðrinu

Kröflulína 2 liggur frá Kröflu að stöðvarhúsi Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdal. …
Kröflulína 2 liggur frá Kröflu að stöðvarhúsi Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdal. Hún er tréstauralína reist árið 1978. Mynd úr safni. mbl.is/Birkir Fanndal

Starfsmenn Landsnets hafa skoðað háspennulínur fyrirtækisins eftir óveðrið sem gekk yfir um helgina fyrir austan og kom þá í ljós að skemmdir hafa orðið á Kröflulínu 2, sem liggur frá Kröflu að Fljótsdal. Engar skemmdir voru hins vegar sjáanlegar á Fljótsdalslínu 4 sem liggur frá Alcoa að Fljótsdal.

Á Facebook-síðu Landsnets segir að starfsfólk fyrirtækisins hafi nú þegar fundið fimm brotnar stæður á Kröflulínu 2. Ekkert straumleysi varð hins vegar þegar Kröflulína 2 fór út, en nýja línan, Kröflulína 3, sem liggur samhliða, hjálpaði þar til.

Kröflulína 2 er tréstauralína og var reist árið 1978. Kröflulína 3 er stálmastralína og hluti af nýrri kynslóð sem hefur það hlutverk að bæta raforkuflutningskerfið og auka stöðugleika.

Einnig brotnaði stæða í Hólalínu 1, en það er lína sem liggur á milli Teigarhorns og Hóla. Starfsfólk Landsnets er á leið á staðinn til að meta skemmdir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert