Taka fagnandi við einstöku myndasafni

Ólafur K. Magnússon að störfum við höfnina í Reykjavík einhverntíman …
Ólafur K. Magnússon að störfum við höfnina í Reykjavík einhverntíman á áttunda áratugnum. mbl.is/RAX

Hið viðamikla filmu- og myndasafn Ólafs K. Magnússonar, fyrrverandi ljósmyndara á Morgunblaðinu, verður afhent Ljósmyndasafni Reykjavíkur til varðveislu. Ólafur (1926-1997) hóf störf sem ljósmyndari blaðsins árið 1947 og starfaði við blaðið til sjötugs, í 49 ár, en hann lést ári síðar. Hann nam fréttaljósmyndun og kvikmyndagerð í New York og Hollywood og varð fyrstur Íslendinga til að gera fréttaljósmyndun að ævistarfi. Mörg fyrstu árin í starfi var hann eini fastráðni ljósmyndari blaðsins en þegar hann lét af störfum var ljósmyndadeild hans skipuð nær tveimur tugum starfsmanna.

Haraldur Johannessen, ritstjóri og framkvæmdastjóri Árvakurs, undirritaði ásamt Kristni, syni Ólafs, og Guðbrandi Benediktssyni, safnstjóra Borgarsögusafns Reykjavíkur, sem Ljósmyndasafn Reykjavíkur er hluti af, samninginn um tilfærslu safnsins. Lesendur miðla Árvakurs munu sem endranær njóta verka frumkvöðulsins með margskonar hætti í miðlum útgáfunnar.

„Afkomendur Ólafs K. Magnússonar ljósmyndara fagna þessum áfanga og hlakka til að vinna með Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Með þessu verður ljósmyndasafnið aðgengilegra fyrir alla áhugasama. Ljósmyndir Ólafs hafa ekki verið mikið sýndar opinberlega hin síðari ár og vonandi verður hér breyting á,“ segir Kristinn.

Á einni kunnustu mynd Ólafs K., sem hefur verið kölluð …
Á einni kunnustu mynd Ólafs K., sem hefur verið kölluð fréttamynd 20. aldar á Íslandi, má sjá lögreglumenn með kylfur og hjálma hrekja andstæðinga aðildarinnar að Atlantshafsbandalaginu af Austurvelli 30. mars 1949 Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon

Í Ljósmyndasafni Reykjavíkur eru varðveitt ljósmyndasöfn ýmissa fréttamiðla fyrri tíðar og margra fréttaljósmyndara. Þegar safn Ólafs K. bætist þar við getur safnið með enn betri hætti þjónustað ýmsa sem leita að myndefni frá seinni hluta tuttugustu aldar en Ólafur tók margar þekktustu og mikilvægustu frétta- og mannlífsmyndir sem teknar voru hér á landi á áratugunum um og eftir miðja síðustu öld. Hann var einn merkasti frétta- og heimildaljósmyndari þjóðarinnar. 

„Við á safninu tökum fagnandi á móti þessu einstaklega merka og mikla ljósmyndasafni og erum þakklát bæði fjölskyldu Ólafs, sem og Morgunblaðinu, sem hefur varðveitt og sinnt safninu af metnaði um langa hríð,“ segir Guðbrandur. Hann bætir við að þegar séu hjá þeim ýmis merkileg söfn fréttaljósmyndara og líta megi svo á „að safn Ólafs K. Magnússonar sé sannarlega komið á góðan stað, þar sem það verður opið og öllum almenningi aðgengilegt um ókomna tíð. En þar sem Ólafur var frumkvöðull á sviði fréttaljósmyndunar hér á landi og afar afkastamikill, þá má segja að hér bætist hátt í tveir áratugir við myndræna skráningu sögunnar, sem við varðveitum á safninu. Það er mikið fagnaðarefni“.

Ólafur K. Magnússon mátar hatt Jóhannesar Kjarvals, sem fylgist með.
Ólafur K. Magnússon mátar hatt Jóhannesar Kjarvals, sem fylgist með.

Eftir lát Ólafs var búið um filmusafn Ólafs á Morgunblaðinu samkvæmt ýtrustu kröfum safna. Nú verða fluttar af blaðinu á Ljósmyndasafnið um 140 filmumöppur, jafn margar möppur með snertiprentum og umtalsverður fjöldi prenta og ýmissa gagna frá ferli ljósmyndarans. Unnið er að bók með helstu ljósmyndum Ólafs og umfjöllun um ævi hans og feril.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert