Telur sig hafa sett met eftir slæmt gengi á móti

Karen ásamt móður sinni Ásdísi Björgu og Margréti Sigfúsdóttur dómara …
Karen ásamt móður sinni Ásdísi Björgu og Margréti Sigfúsdóttur dómara í keppninni. mbl.is/Hákon Pálsson

Karen Rúnarsdóttir, áhugakona um brauðtertugerð og nýbökuð móðir, telur sig hafa sett nýtt met þegar hún vann ekki til neinna verðlauna á Íslandsmeistaramóti í brauðtertugerð sem haldið var í tilefni af 100 ára afmæli Ormsson á laugardaginn.

Hún ætlar þó ekki að láta það stöðva sig og stefnir „óhikað á að taka þátt í fleiri keppnum í framtíðinni“.

„Ég held að við höfum sett Íslandsmeistaramet í að tapa brauðtertukeppnum vegna þess að við höfum tekið þátt í öllum auglýstum brauðtertukeppnum en höfum aldrei unnið og það var engin undantekning á því þarna. En við vorum samt sem áður með glæsilega tertu og höfðum mjög gaman af þessu,“ segir Karen í samtali við mbl.is. Hún tók þátt í keppninni ásamt móður sinni.

Brauðtertan sem mæðgurnar gerðu fyrir keppnina.
Brauðtertan sem mæðgurnar gerðu fyrir keppnina. mbl.is/Hákon Pálsson

Guðrún Sigríður Matthíasdóttir stóð uppi sem sigurvegari keppninnar en að mati dómnefndar var brauðtertan hennar bragðbest. Þá unnu þau Þröstur Sigurðsson verðlaun fyrir fallegustu brauðtertuna og Sara Mist Sverrisdóttir verðlaun fyrir frumlegustu brauðtertuna.

Guðrún Sigríður Matthíasdóttir fékk verðlaun fyrir bragðbestu brauðtertuna.
Guðrún Sigríður Matthíasdóttir fékk verðlaun fyrir bragðbestu brauðtertuna. mbl.is/Hákon Pálsson

Dómnefndina skipuðu þau Margrét Sigfúsdóttir fyrrum skólastýra Hússtjórnarskólans í Reykjavík, Kristján Kristjánsson vörustjóri AEG og Þóra Stefánsdóttir brauðtertuunnandi frá HTH innréttingum.

Sara Mist Sverrisdóttir vann verðlaun fyrir frumlegustu brauðtertuna.
Sara Mist Sverrisdóttir vann verðlaun fyrir frumlegustu brauðtertuna. mbl.is/Hákon Pálsson

Komin langt á leið

Brauðterta Karenar og móður hennar bar heitið Hundrað ára afmælisterta Ormsson. Var hún m.a. samsett úr hringskornu brauðtertubrauði og rækjusalati með miklu dilli og pipar, og skreytt með rósum úr garði tengdaforeldra hennar, gúrku, dilli og klettasalati.

Karen var langt komin á leið þegar keppnin fór fram um helgina en þegar blaðamaður náði tali af henni í dag var hún stödd á fæðingardeildinni nýbúin að eiga barnið.

„Við tókum þátt í fyrstu keppninni sem var haldin í Listasafni Reykjavíkur á menningarnótt árið 2019. Þá var ég einmitt líka ólétt og þar gerðum við innsetningu og vorum með gamaldags fermingarveislu. Í ár þá vorum við með þetta partý-legar. Vorum með þetta á bláaum upphækkuðum diski sem okkur fannst tóna vel með bleiku rósunum.“

Spurð hvort hún stefni á að taka þátt í fleiri brauðtertukeppnum kveðst hún ekki ætla að láta slæmt gengi stöðva sig. Stefnir hún ótrauð áfram.

mbl.is