Á fjórtán hunda

Erna úti í guðsgrænni náttúrunni með ferfættum vinum en hún …
Erna úti í guðsgrænni náttúrunni með ferfættum vinum en hún á fjórtán hunda. Kveður hún keppnismennsku innan vébanda Sleðahundaklúbbsins gefandi íþrótt sem fleiri mættu gjarnan stunda. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta skiptist í „dryland“ og snjókeppnir þannig að haldin eru tvö Íslandsmót,“ segir Erna Sofie Árnadóttir, nýbakaður Íslandsmeistari í „bikejoring“, einni nokkurra keppnisgreina á Íslandsmeistaramóti Sleðahundaklúbbs Íslands, í samtali við mbl.is en hún og tveir hunda hennar, þær Nala og Freyja, kepptu í fjögurra kílómetra „bikejoring“ þar sem sleðahundar draga keppanda á reiðhjóli.

„Ég var að keppa með fjóra hunda, er reyndar að passa einn þeirra, en ég á ekki Nölu. Ég á hins vegar fjórtán hunda,“ segir Erna við þrumulostinn blaðamann sem er lítið inni í hundasleðakeppnum. Fjórtán hundar eru með samtals 56 fætur. Það er töluvert.

En hvernig lá leið Ernu í hundasportið?

Íslandsmeistarinn hugsar sig lengi um. „Ég veit það ekki, þetta þróaðist bara svona, mér var kennt aðeins inn á þetta upphaflega og þá kviknaði áhuginn,“ segir Erna sem keppti í mörgum flokkum um helgina. „Stelpurnar stóðu sig frábærlega og við þutum af stað á rúmlega 45 km hraða!“ skrifar hún á Fabook-síðu sína. „Við Freyja og Úlfa tókum þátt í 8 km scooter og lentum í öðru sæti. Freyja koma mér virkilega á óvart þar eftir að hlaupa svona hratt með Nölu. Úlfa stóð sig mjög vel en ég var orðin vel þreytt í fótunum (þriðja hlaupið hjá mér yfir daginn),“ skrifar hún enn fremur.

Meðal keppnisgreina er „bikejoring“ þar sem sleðahundar draga keppanda á …
Meðal keppnisgreina er „bikejoring“ þar sem sleðahundar draga keppanda á reiðhjóli. Ljósmynd/Aðsend

En hvað gefur henni mest við keppnismennskuna og umgengni við sleðahunda?

„Það er aðallega samveran með hundunum, þeir eru alltaf að koma mér á óvart, hvað þeir geta og hvað þeir standa sig vel,“ svarar Erna sem býr ekki með allan hundaskarann inni í íbúð hjá sér. „Nei nei, Freyja býr inni en svo er ég með alaska- og síberíuhöskía og þeir búa í séraðstöðu, ég bý bara á sveitabæ í Borgarfirði,“ segir Erna sem þó er Grindvíkingur að upplagi.

Hún er fædd 1985 og tók að keppa í hundagreinum árið 2012 og er hvergi nærri hætt. „Já, ég held áfram í þessu, þetta er svo skemmtilegt og gefandi,“ segir Erna sem er hundaþjálfari auk þess að sauma hundabeisli og á því nær hún að draga fram lífið. „Það er hægt að kenna öllum hundum að draga, ég byrjaði að kenna Nölu og núna er hún Íslandsmeistari,“ segir keppnismanneskjan af innlifun og áhuga.

„Geyr nú Garmr mjök fyr Gnipahell,“ segir í Völuspá. Maður, …
„Geyr nú Garmr mjök fyr Gnipahell,“ segir í Völuspá. Maður, dýr og íðilfögur náttúran renna saman í eitt á mótum Sleðahundaklúbbs Íslands. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta sport mætti alveg vera stærra á Íslandi. Þeir sem hafa áhuga á að keppa þurfa að kenna hundunum sínum áttirnar og eiga réttan búnað. Þetta getur orðið dýrt sport þegar fólk er komið lengra, hundasleðar eru til dæmis ekki ódýrir,“ segir Erna og við sláum botninn í spjallið við þessa gallhörðu áhugamanneskju og hundaþjálfara með niðurlagi Facbook-færslu hennar:

„Verðlaunin voru ekkert smá flott í ár og erum við ótrúlega þakklát öllum sponsum [styrktaraðilum], hér verður sko nammiveisla hjá hundunum og ég er komin með vetrarbirgðir af uppáhaldsvarasalvanum mínum.“

mbl.is