Ætlaði að selja riffil og var beittur rafvopni

Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og nótt.
Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir voru handteknir í nótt vegna brota á vopnalögum en maður ætlaði að selja öðrum loftriffil. Kemur fram í dagbók lögreglu að kaupandi hafi reynt að hafa riffillinn af seljanda án þess að greiða fyrir hann og beitti því viðkomandi rafvopni (e. taser).

Báðir mennirnir voru ákærðir fyrir brot á vopnalögum og auk þess fyrir að beita hvorn annan ofbeldi eða hótun um ofbeldi. Málið var leyst með skýrslutökum og því hvorugur vistaður í fangageymslu, en vopnin voru haldlögð.

Þá segir einnig í dagbók lögreglu að óskað hafi verið eftir aðstoð hennar vegna húsbrots og skemmdarverka en auk þess barst tilkynning um annað innbrot þar sem rafhlaupahjóli var stolið.

Lögreglu barst einnig tilkynning um mann að hóta starfsfólki verslunar en var hann farinn þegar lögregla kom á vettvang og voru engar kröfur gerðar í því máli. Þá var einum farþega strætó vísað út vegna ónæðis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert