Segir frumvarpið óhugnanlegt

Þórhildur gagnrýnir einnig að ekkert raunverulegt sjálfstætt eftirlit sé með …
Þórhildur gagnrýnir einnig að ekkert raunverulegt sjálfstætt eftirlit sé með störfum lögreglu hér á landi.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, segist mótfallin öllum ákvæðum nema einu í nýju frumvarpi sem á að veita lögreglu auknar og forvirkar rannsóknarheimildir.

„Það sem er mjög skýrt í þessu frumvarpi er að þessar rannsóknarheimildir, sem verið er að leggja til að lögreglan fái, beinist að fólki sem er ekki grunað einu sinni um að vera að undirbúa brot,“ segir Þórhildur Sunna í samtali við mbl.is.

„Það er það sem er óhugnanlegast við þetta. Viljum við að lögreglan fái heimildir til að njósna um fólk sem ekki er grunað um að gera neitt saknæmt?“

Þurfa ekki að vera grunaðir

Í drögum að frumvarpi um afbrotavarnir sem lagt var fram í vor er meðal annars ákvæði um að lögreglan geti haft eftirlit með einstaklingum sem ekki eru grunaðir um að undirbúa afbrot né hafa framið afbrot, svo framarlega sem hún telji viðkomandi hafa tengsl við skipulagða brotastarfsemi eða að af þeim kunni að stafa sérgreind hætta fyrir almannaöryggi.

Þórhildur segir mikilvægasta muninn á þeim heimildum sem lögreglan hefur í dag og í því sem fram kemur í drögunum, er að núna þurfi lögreglan í það minnsta að hafa einhvern grun um að brot sé annað hvort í undirbúningi eða að það hafi verið framið. 

„Það sem lögreglan getur gert er að hún getur fengið ábendingu einhvers staðar frá um að einhver sé með tengsl við skipulagða glæpastarfsemi. Er það nóg samkvæmt þessum drögum að nýju frumvarpi til að lögreglan geti elt einstakling eða hópa á milli staða. Hún má taka af viðkomandi myndir og myndbönd án þess að viðkomandi viti af því og má afla allra upplýsinga um fólk frá opinberum stofnunum, þar með talið heilbrigðisstofnunum,“ segir Þórhildur.

Þá kemur fram að lögreglu verði heimilt að fylgjast með og skrá upplýsingar um það sem birtist á opnum vefsíðum, þar með talið á samfélagsmiðlum, umferð þar og einstaklingum. Lögreglan má þá vakta staði sem hún telur vera líklegri til að verða vettvangur afbrota.

Þórhildur segist ósammála öllum ákvæðum í drögunum sem birt voru í samráðsgátt í vor, nema einu, sem lögfestir rétt lögreglu til að vopnbúast.

Dómsmálaráðherra segir frumvarpið tilbúið

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, sagði á dögunum að frumvarp um afbrotavarnir eða forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu væri tilbúið í dómsmálaráðuneytinu.

Nýja frumvarpið hefur ekki verið gert aðgengilegt, en ekki er vitað hvort eða á hvaða hátt það sé frábrugðið þeim drögum sem birt hafa verið. Jón sagði í samtali við Vísi í gær að umræða um frumvarpið bæri keim af áróðri. Þórhildur segist ekki eiga von á að það verði mjög frábrugðið drögunum frá því í vor.

„Það sem truflar mig við þessa umræðu núna er að við erum að tala eitthvað út í loftið um eftirlitsheimildir lögreglu. Það sem ég hafði í höndunum voru drög að frumvarpi frá dómsmálaráðherra þar sem fyrirætlanir eru mjög skýrar.

Um leið og við erum farin að tala skýrt um hvað stendur til er sagt að þetta verði ekkert svona. Að þetta plan sem hafi verið lagt hingað til sé bara einhver æfing. Við eigum eftir að sjá hvað kemur út úr þessu en ég efast um að það verði eitthvað mikið öðruvísi.“

Ekkert sjálfstætt eftirlit

Þórhildur gagnrýnir einnig að ekkert raunverulegt, sjálfstætt eftirlit sé haft með störfum lögreglu hér á landi. 

„Ég vísa þar í endurtekin bréf frá ríkissaksóknara til ríkislögreglustjóra þar sem sá fyrrnefndi grátbiður í raun ríkislögreglustjóra um að lúta því eftirliti sem lögreglan á að lúta þegar kemur að hlerunum og öðru slíku, og hvernig lögreglustjórinn svarar ekki,“ segir Þórhildur.

Bréf þessi eru rituð á árunum 2017-2020. Í bréfi frá árinu 2020 segir meðal annars:

„Verður ríkissaksóknari enn og aftur að lýsa vonbrigðum með að fyrirspurnum hans sé ekki svarað en þessar tafir á nauðsynlegum breytingum á hugbúnaði hamla ríkissaksóknara í að sinna eftirlitsskyldum sínum með viðunandi hætti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina