Sér töluvert á vél Icelandair

Vél Korean Air rakst á vél Icelandair á Heathrow-velli í …
Vél Korean Air rakst á vél Icelandair á Heathrow-velli í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var svolítið skrýtið. Við sátum bara í vélinni úti á flugbraut, nálægt flugstöðvarbyggingunni,“ segir Sigrún Dóra, farþegi í vél Icelandair. Vél Korean Air rakst utan í hana á Heathrow-flugvelli í London í kvöld.

„Við vorum að bíða eftir því að komast að hliðinu og þá hristist allt og við fundum fyrir ókyrrð í loftinu. Vinkona mín sem sat við gluggann sá hina vélina keyra fram hjá.“ Segir hún að svo virtist sem vél Korean Air hafi farið í gegnum stél Icelandair-vélarinnar.

Sigrún Dóra lenti ásamt vinkonu sinni í kvöld eftir að …
Sigrún Dóra lenti ásamt vinkonu sinni í kvöld eftir að vél Icelandair rakst utan í vél Korean Air. Ljósmynd/Aðsend

Hafa ekki fengið farangurinn

„Henni datt ekkert í hug að hún hefði skemmt vélina. Flugstjórinn var búinn að segja að það þyrfti að bíða til þess að komast að hliðinu. Þá sátu allir rólegir og voru að bíða eftir að ljósin slokknuðu til þess að geta staðið upp. Loksins komum við að hliðinu og stóðum upp og þá sá vinkona mín út um gluggann litadýrðina af ljósunum og bílunum og öllu,“ segir Sigrún.

Farþegar hafa ekki fengið farangurinn sinn aftur að sögn Sigrúnar og kom hún og vinkona hennar því við í versluninni Tesco áður en á hótelið var komið, til þess að kaupa nauðsynjar. „Við þurftum ekki að fylla út nein eyðublöð,“ segir Sigrún og bætir við að upplýsingagjöf Icelandair sé verulega ábótavant.

„Ég hugsa bara til fólksins sem var komið að hliðinu og átti að fara um borð í vélina til þess að fljúga til Íslands,“ segir Sigrún í lokin, en sá hópur gat ekki flogið með vélinni eftir áreksturinn enda sér töluvert á stélinu.

mbl.is