„Það sluppu allir ómeiddir úr húsinu“

Frá vettvangi.
Frá vettvangi. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Allir sluppu ómeiddir úr húsnæði þvottahússins Vasks á Egilsstöðum þegar eldur braust út fyrr í dag. Þetta kemur fram í færslu fyrirtækisins á Facebook. Efnalaug og verslun er í húsnæðinu og varð það fljótt alelda eftir að eldur kviknaði.

Ekki kemur fram í færslunni hversu margir voru í húsnæðinu þegar eldurinn kom upp en sjónarvottur á vettvangi segir þrjá hafa komið hlaupandi út úr húsinu þegar ljóst varð að kviknað hefði í.

Okkur þykir mjög leiðinlegt og sárt að sjá fyrirtækið okkar fara svona illa. En það sluppu allir ómeiddir úr húsinu,“ segir í færslu Vasks.

Fólk beðið um að fljúga ekki drónum 

Unnið er nú að því að hefta eldinn og koma í veg fyrir að hann dreifist. Talsvert mikill tækjabúnaður er á vettvangi og er lögregla með dróna á lofti til aðstoðar við slökkvistarf, að því er fram kemur í tilkynningu lögreglunnar á Austurlandi.

Er fólk vinsamlegast beðið um að vera ekki með dróna á lofti nálægt vettvangi meðan slökkvistarf stendur yfir.

Búið er að loka aðliggjandi götum og eru íbúar í nágrenninu beðnir um að loka gluggum á húsum sínum. Þá eru þeir jafnframt beðnir um að sýna þolinmæði og skilning.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert