Þorsteinn og Þórhallur skipaðir dómarar

Þorsteinn Magnússon og Þórhallur Haukur Þorvaldsson hafa verið skipaðir í …
Þorsteinn Magnússon og Þórhallur Haukur Þorvaldsson hafa verið skipaðir í embætti héraðsdómara. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Dómsmálaráðherra hefur skipað Þorstein Magnússon og Þórhall Hauk Þorvaldsson í embætti héraðsdómara frá 1. október næstkomandi. Segir frá þessu á vef dómsmálaráðuneytis.

Þorsteinn Magnússon lauk embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2008 og viðbótardiplóma í opinberri stjórnsýslu frá sama skóla árið 2021 og öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi árið 2010.

Frá árinu 2012 hefur Þorsteinn gegnt starfi framkvæmdastjóra óbyggðanefndar auk þess sem hann hefur átt sæti í nefndinni frá árinu 2016.

Þórhallur Haukur Þorvaldsson lauk embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1999 og lagði stund á nám við lagadeild Háskólans í Árósum árin 2005-2006.

Árin 1999-2005 starfaði Þórhallur Haukur sem fulltrúi og staðgengill sýslumannsins á Blönduósi og Hvolsvelli og var um skeið settur sýslumaður. Frá árinu 2006 hefur hann starfað sem lögmaður, þar af með réttindi til málflutnings fyrir Hæstarétti Íslands frá árinu 2013. 

mbl.is