Vilja fjölga í sveitarstjórnum

Gripið var til markvissra aðgerða á Akureyri á síðasta kjörtímabili …
Gripið var til markvissra aðgerða á Akureyri á síðasta kjörtímabili til að stuðla að jákvæðum og faglegum vinnubrögðum í bæjarstjórn. mbl.is/Margrét Þóra

Á meðal þess sem rætt verður um á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem hefst í Hofi á Akureyri í dag, eru drög að skýrslu verkefnastjórnar um aðgerðir til að bæta vinnuaðstæður kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum.

Fram kemur í skýrslunni að mikið álag sé á fulltrúum í sveitarstjórnum, laun séu lág og vinnuaðstæður bágbornar. Leggur verkefnisstjórnin m.a. til að reglur um fjölda sveitarstjórnarmanna verði rýmkaðar þannig að sveitarfélög geti fjölgað fulltrúum. Einnig að kjaraákvæðum sveitarstjórnarlaga verði breytt í því skyni að stuðla að sanngjörnum kjörum og heimilað verði að bæta fulltrúum tekjutap. Þá er eindregið mælt með því að teknar verði upp svokallaðar barnagreiðslur að danskri fyrirmynd til kjörinna fulltrúa með börn undir 10 ára aldri á sínu framfæri til að standa straum af barnagæslu.

Fyrir þinginu liggur einnig ýtarleg skýrsla tekjustofnanefndar um endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga, þar sem m.a. kemur fram að í norrænum samanburði sé umfang sveitarstjórnarstigsins minnst sem hlutfall af landsframleiðslu á Íslandi og hlutfallslegt vægi ríkisframlaga í heildartekjum sveitarfélaga sé einnig minnst hér á landi.

Drepið er á ýmsar leiðir til að auka tekjur sveitarfélaga, m.a. að sérstakur orkuskattur sé lagður á alla orkuframleiðslu líkt og gert sé í Noregi, að framleiðslugjald á fiskeldi, sem ríkið leggur nú á, renni beint til sveitarfélaga, að gistináttagjald fari alfarið til sveitarfélaga og að ríkissjóður greiði sveitarfélögum með beinum hætti tap útsvarstekna vegna skattfrjálsrar úttektar á séreignarsparnaði en það tekjutap er metið á samtals 16 milljarða króna að nafnvirði frá árinu 2014.

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert