200 milljóna styrkur til rannsóknarverkefnis

Pétur segir að ávinningur verkefnisins fyrir vísindin sé að skilja …
Pétur segir að ávinningur verkefnisins fyrir vísindin sé að skilja betur grundvallarferla sem stjórna genatjáningu og frumuákvörðunum. AFP/Ahmad Gharabli

Evrópska rannsóknarráðið (ERC) hefur veitt vísindahópi undir forystu Péturs Orra Heiðarssonar rúmlega 200 milljóna króna styrk til rannsóknaverkefnis. Verkefnið miðar að því að öðlast betri skilning á þeim þáttum sem ráða því hvernig hægt sé að breyta einni tegund frumu í aðra, að því að segir í tilkynningu frá Háskóla Íslands.

Verkefnið heitir PIONEER og er alfarið stýrt við HÍ undir hatti Raunvísindastofnunar háskólans.

„Prótínin sem nefnast frumkvöðla-umritunarþættir hafa afar sérstaka eiginleika sem gera þeim kleift að opna það erfðaefni sem er lokað og gera þannig gen sem eru mikilvæg í þroskunarferli lífvera aðgengileg á ný.

Þessir eiginleikar prótínanna hafa nýlega verið beislaðir til þess að breyta tegund frumu úr einni í aðra. Það er kallað frumuendurforritun og gæti valdið byltingu í frumu- og genameðferðum í læknisfræði,“ er haft eftir Pétri í tilkynningunni.

Hann segir að ávinningur verkefnisins fyrir vísindin sé að skilja betur grundvallarferla sem stjórna genatjáningu og frumuákvörðunum, þ.e. hvaða ferlar leiða til þess að stofnfruma verður að skilgreindri frumu líkt og hjartafrumu eða taugafrumu.

mbl.is