Andlát: Svavar Pétur Eysteinsson

Svavar Pétur Eysteinsson.
Svavar Pétur Eysteinsson. Ljósmynd/Baldur Kristjáns

Svavar Pétur Eysteinsson tónlistarmaður er látinn, 45 ára að aldri. Svavar Pétur greindist með fjórða stigs krabbamein fyrir tæpum fjórum árum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum. 

Svavar Pétur var stoltur Breiðhyltingur. Gekk í Hólabrekkuskóla og Fjölbrautaskólann í Breiðholti.

Svavar Pétur var menntaður grafískur hönnuður og ljósmyndari en er þekktastur sem tónlistarmaður og textahöfundur. Hann spilaði meðal annars með hljómsveitunum Múldýrinu, Rúnk og Skakkamanage, en í seinni tíð samdi hann og gaf út tónlist undir listamannsnafninu Prins Póló. Þá hafa veggspjöld með hendingum úr lagatextum hans notið mikilla vinsælda.

Svavar var líka frumkvöðull á sviði matvælaframleiðslu og setti á markað Bulsur og Bopp.

Svavar Pétur bjó um tíma ásamt fjölskyldu sinni á Seyðisfirði og seinna á Drangsnesi. Vorið 2014 flutti fjölskyldan í Berufjörð, stundaði þar lífræna ræktun og framleiðslu, og rak tónleikastað og ferðaþjónustu undir nafninu Havarí til haustsins 2020.

Svavar Pétur lætur eftir sig eiginkonu, Berglindi Häsler, og þrjú börn, Hrólf Stein, Aldísi Rúnu og Elísu.

mbl.is