Carlsen til Íslands í október

AFP

Magnus Carlsen, heimsmeistari í skák, er á meðal þeirra skákmanna sem munu tefla á Íslandi þann 25.-30. október næstkomandi, á Heimsmeistaramótinu í Fischer-slembiskák.

Mótið verður sýnt í beinni útsendingu á Rúv og verður teflt á Hótel Natura.

„Þetta er heimsviðburður sem fáir ættu að láta fram hjá sér fara,“ segir Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands. Sambandið auglýsir nú eftir sjálfboðaliðum til að starfa við mótið.

Nakamura, So og Hjörvar einnig skráðir  

50 ár eru nú liðin frá einvígi Bobby Fischers og Borisar Spassky, sem fram fór í Laugardalshöll árið 1972 og verður því tefld slembiskák sem kennd er við Fischer. Einhverjir geta glaðst yfir því að stórmeistarinn Hans Niemann, sem nýverið var sakaður um svindl, er ekki á meðal keppenda.

Bandarísku ofurstórmeistararnir Hikaru Nakamura og Wesley So munu einnig verða á mótinu, ásamt Hjörvari Steini Grétarsssyni stórmeistara, sem er eini Íslendingurinn.

Enn er umspil í gangi fyrir mótið og gæti ofurstórmeistarinn Anish Giri átt von á þátttökusæti.

960 mögulegar upphafsstöður

Fischer-slembiskák er margtum lík hefðbundinni skák, að því undanskyldu að upphafsstaðan er tilviljanakennd, og sérstakar reglur gilda um hrókeringu.

Keppendur munu fá tuttugu mínútur til þess að hugsa sig um, eftir að þeir hafa fengið að sjá sína upphafsstöðu, en að því loknu er notast við 20 mínútna tímamörk, með 5 sekúndna viðbótartíma á leik. Upphafsstöðurnar sem upp gætu komið eru 960 talsins.

Dæmi um upphafsstöðu í Fischer-slembiskák. Möguleikarnir eru ekki svo margir, …
Dæmi um upphafsstöðu í Fischer-slembiskák. Möguleikarnir eru ekki svo margir, um 960 talsins.
mbl.is