Húsleit hjá föður ríkislögreglustjóra

Lögregla rannsakar grun um undirbúning að hryðjuverkum.
Lögregla rannsakar grun um undirbúning að hryðjuverkum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Húsleit var framkvæmd á heimili Guðjóns Valdimarssonar, föður ríkislögreglustjóra, í tengslum við rannsókn lögreglu er varðar ætlaðan und­ir­bún­ing til hryðju­verka.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sagði sig frá rannsókninni vegna vanhæfis í gærmorgun eftir að nafn föður hennar kom upp við rannsókn málsins. Í kjölfarið var gerð húsleit á heimili Guðjóns.

„Rík­is­lög­reglu­stjóri sagði sig frá mál­inu um leið og þess­ar upp­lýs­ing­ar lágu fyr­ir vegna mögu­legs van­hæf­is,“ sagði Sveinn Ingi­berg Magnús­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá embætti héraðssak­sókn­ara, á upplýsingafundi lögreglu í dag.

Stórt vopnasafn og vopnasala á netinu

Ekki ligg­ur fyr­ir hver tengsl Guðjóns við málið eru. Þekkt er að hann á um­fangs­mikið vopna­safn og hef­ur hann auk þess rekið vopna­sölu á net­inu um 15 ára skeið, eft­ir því sem næst verður kom­ist. 

Í at­huga­semd við laga­frum­varp um vopn, sprengi­efni og skotelda, sem hann sendi inn árið 2012, sagði hann skot­vopna­safnið sitt vera eitt það stærsta í einka­eigu á Íslandi. Kvaðst hann hafa fest veru­lega fjár­muni í vopn­um og taldi hann safnið vera að verðmæti um 40 millj­ón­um króna. Hann tók einnig fram að vopna­safnið væri geymt í sér­hönnuðu hús­næði og að vopn­in væru öll skráð og fyr­ir þeim leyfi lög­um sam­kvæmt.

Fram kom á blaðamanna­fundinum í dag að stærst­ur hluti þeirra skot­vopna, sem fund­ust í aðgerðum lög­regl­unn­ar á fimmtu­dag fyr­ir viku, væru verk­smiðju­fram­leidd­ar byss­ur og væru jafn­framt lög­lega skráðar. Ekk­ert var uppi látið um á hvern eða hverja byss­urn­ar hefðu verið skráðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert