„Teljum okkur vera í 100% rétti“

Flugvélar Icelandair
Flugvélar Icelandair mbl.is/Árni Sæberg

Verið er að fara yfir hversu mikið tjón varð á flugvél Icelandair eftir að flugvél Korean Air rakst utan í hana á Heathrow-flugvelli í London í gærkvöldi.

Nánar tiltekið þá rakst vængendi kóresku vélarinnar í hliðarstél Icelandair-vélarinnar, en það er hreyfanlega stykkið sem er aftan á stélinu, að því er Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, greinir frá.

Beið eftir hliði

Óhappið varð á meðan íslenska flugvélin var kyrrstæð og var að bíða eftir því að geta tengst hliði. Hin flugvélin, sem var á akbraut, ók þá framhjá með þessum afleiðingum.

Að sögn Guðna verður málið rannsakað af breskri rannsóknarnefnd. Spurður hvort ekki sé líklegt að kóreska vélin sé sökudólgurinn í málinu segir Guðna allt benda til þess. „Við teljum okkur vera í 100% rétti.“

Ekki þörf á áfallahjálp

Engin slys urðu á fólki við áreksturinn en vélin hristist umtalsvert, eins og komið hefur fram í viðtölum við farþega. „Þetta var minniháttar atvik og farþegar voru rólegir. Því var metið svo að ekki væri þörf á áfallahjálp,“ segir Guðni aðspurður.

Farþegar sem áttu flug til Íslands með flugvélinni sem lenti í óhappinu gistu á hóteli í London í nótt. Ný ferðaáætlun var sett upp fyrir hópinn í gærkvöldi og flýgur hann til Íslands með tveimur flugferðum sem eru á áætlun frá Heathrow annars vegar og Gatwick hins vegar. Bæði flugin voru á áætlun í hádeginu í dag.

Farangurinn enn um borð

Spurður út í farangur farþeganna sem voru um borð í vélinni í gær segir Guðni að við flugatvik á borð við þetta sé farþegum hleypt frá borði en lögreglan taki vélina og allt sem í henni er í sína vörslu.

Flugvélin er enn til rannsóknar hjá lögreglu og situr á stæði við flugstöðina. Icelandair bíður eftir því að lögregla gefi leyfi til að færa farangurinn frá borði.

„Starfsmaður á okkar vegum er á leiðinni til London til þess að aðstoða við að greiða úr málinu og koma farangrinum sem allra fyrst í hendur farþega en ljóst er að það gerist ekki fyrr en lögregla hefur gefið leyfi til þess,“ segir Guðni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert