„Þessir atburðir færa ógnina mjög nærri okkur“

Forsætisráðherra þakkaði Þorgerði fyrir að vekja máls á varnarmálum landsins.
Forsætisráðherra þakkaði Þorgerði fyrir að vekja máls á varnarmálum landsins. Samsett

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kveðst fylgjast grannt með framvindu mála er varða skemmdarverk á gasleiðslum í Eystrasaltinu undanfarið.

„Þessir atburðir færa ógnina mjög nærri okkur sem nú steðjar að. Við höfum fylgst grannt með þessum atburðum og verið í samskiptum við nágrannaríki okkar um aðgerðir og viðbúnað,“ sagði Katrín í ræðustól Alþingis, en þjóðaröryggismál voru til umræðu í dag á þinginu.

Spurði þar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, forsætisráðherra hvernig hún sæi fyrir sér að Ísland tæki til sín af meiri krafti á vettvangi NATO í ljósi sameiginlegrar yfirlýsingar Norðurlandaríkjanna þann 15. ágúst.

„Nú er einmitt mikilvægt að við horfum fram í tímann og metum stöðu Íslands í nýju ljósi, spyrjum okkur hvað megi bæta og hvað þurfi að gera, rétt eins og nágrannaríkin hafa gert í kjölfar innrásarinnar,“ sagði Þorgerður.

Þorgerður spurði út í netöryggismál og aðkomu þingsins að öryggismálum, …
Þorgerður spurði út í netöryggismál og aðkomu þingsins að öryggismálum, í dag væri engin trygg aðkoma þess. mbl.is/Hákon

Hefur lagt áherslu að efla þjóðaröryggisráð

Forsætisráðherra sagðist þeirrar skoðunar að þjóðaröryggisstefnan sem var samþykkt árið 2016 hefði sannað gildi sitt á síðustu sex árum, þar megi helst nefna lög um þjóðaröryggisráð. Þakkaði hún jafnframt Þorgerði fyrir að vekja máls á varnarmálum landsins.

„Ég hef lagt á það mikla áherslu í ríkisstjórnartíð minni að efla starf þessa ráðs og þar hefur verið unnin mikil vinna undanfarin fjögur ár við að fylgja eftir öllum þáttum þjóðaröryggisstefnunnar.“

Bætti hún við að lagning hins nýja sæstrengs; Írisar, væri mikilvægur áfangi í að efla fjarskiptaöryggi Íslands.

Katrín svaraði um hæl og sagði ríkisstjórnina ekki hafa metið …
Katrín svaraði um hæl og sagði ríkisstjórnina ekki hafa metið sem forgangsatriði að herstöð væri hér á landi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Herstöð ekki forgangsmál

Þorgerður tók aftur til máls og spurði út í netöryggismál og aðkomu þingsins að öryggismálum, í dag væri engin trygg aðkoma þingsins.

„Utanríkisráðherra getur ákveðið á morgun að fara í það að ákveða til dæmis bókanir við varnarsamninginn eða taka risastórar ákvarðanir. Þetta þarf að athuga,“ sagði hún og bætti við að hún vildi skýrari svör varðandi kosti og galla viðvarandi veru varnarliðs hér á landi.

„Hvaða mat hefur átt sér stað, hverjir eru kostir og gallar varðandi fælingarmátt, og svo framvegis, eða hefur þetta ekki verið rætt innan ríkisstjórnar og er samstaða um þetta?“

Katrín svaraði um hæl og sagði ríkisstjórnina ekki hafa metið sem forgangsatriði að herstöð væri hér á landi. „Það er eitthvað sem ég hef meðal annars rætt á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og ekki fengið kröfu um það.“

Myndin sýnir fyrri gasleka úr gasleiðslunum í Eystrasaltinu.
Myndin sýnir fyrri gasleka úr gasleiðslunum í Eystrasaltinu. AFP

Þingmenn flestir sammála um NATO

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar skarst í leikinn og sagðist ekki þeirrar skoðunar að innrásin í Úkraínu kallaði á allsherjarendurmat á þjóðaröryggisstefnunni.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar, sagði að við byggjum í breyttum heimi, og endurmat á varnarstöðu landsins kallaði á umræðu, stefnumótun og stjórnsýslu sem snúi að öryggis- og varnarmálum.

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók til máls og sagði breyttan veruleika í öryggisumhverfi okkar kallaði á að öll bandalagsríki NATO leggi meira af mörkum.

„Við verðum vör við það í samtölum okkar við samstarfsþjóðir okkar í NATO hversu mikils framlag okkar og samstaða er metið,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert