Ættartengsl ríkislögreglustjóra ekki óþægileg

Jón Gunnarsson segir mál sem þetta alltaf geta komið upp.
Jón Gunnarsson segir mál sem þetta alltaf geta komið upp. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir það ekki óþægilegt fyrir embætti ríkislögreglustjóra að ríkislögreglustjóri tengist fjölskylduböndum einstaklingi, sem nefndur hefur verið í tengslum við rannsókn á ætluðum undirbúningi hryðjuverka hér á landi.

„Það er ekki mitt mat að það sé eitthvað óþægilegt við það. Svona getur komið upp og það eru fordæmi fyrir öllu í þessu. Þetta á örugglega eftir að koma upp aftur og þá er aðalatriðið að fólk bregðist við með viðeigandi hætti og að það séu engir hagsmunir að skarast í þeim efnum. Það er stóra málið í þessu,“ segir Jón í samtali við mbl.is.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sagði sig frá rannsókn málsins eftir að nafn föður hennar, Guðjóns Valdimarssonar, kom upp í tengslum við rannsóknina. Fram hefur komið að lögreglan hafi gert húsleit á heimili hans.

Nýtur áfram fulls trausts

Jón segir stöðu Sigríðar Bjarkar ekki hafa breyst og hún njóti fulls trausts hans.

„Hún gerði grein fyrir þessari stöðu. Hún hefur sagt sig frá málinu og það er annar yfirmaður sem sér um þetta mál og þar stendur þetta. Þetta er ekkert á mínu borði,“ segir Jón jafnframt.

Aðspurður hvort Sigríður Björk hafi gengið á hans fund og greint honum frá málinu, segir Jón:

„Hún greindi frá þessu samkvæmt reglum, sem henni ber að gera. Hún greinir ríkissaksóknara frá þessu og segir sig frá málinu. Hún gerir það sem henni ber að gera þegar svona aðstæður koma upp, sem geta alltaf komið upp.“

Jón vill ekki gefa upp hvenær hann frétti sjálfur af málinu. Hann er staddur erlendis á fundum. Samkvæmt því sem kom fram á upplýsingafundi lögreglunnar í gær komu tengslin í ljós í fyrradag. Strax í kjölfarið mun Sigríður Björk hafa óskað eftir því við ríkissaksóknara að segja sig frá málinu.

mbl.is