Engin leið að virða persónuvernd og gæta sóttvarna

Hjalti Már, yfirlæknir á bráðamóttökunni, segir það ekki vandamál að …
Hjalti Már, yfirlæknir á bráðamóttökunni, segir það ekki vandamál að fólk leiti á bráðamóttöku að óþörfu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mjög mikið álag á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi, sem greint var frá fyrr í dag, er ekki tilkomið vegna þess að fleiri leita þangað en venjulega. Fyrst og fremst er um að ræða manneklu meðal hjúkrunarfræðinga, að sögn Hjalta Más Björnssonar, yfirlæknis á bráðamóttökunni. Það sé ekki vandamál að fólk leiti á bráðamóttökuna að óþörfu.

Í tilkynningu frá Landspítalanum í morgun kom fram að nauðsynlegt gæti reynst að forgangsraða eftir bráðleika og vísa fólki í önnur úrræði. Þá var fólk hvatt til að leita annað vegna vægari slysa og veikinda.

Bara venjulegt ástand í samfélaginu

Hjalti segir að álagið ætti ekki að vera meira en venjulega, þar sem ekki komi fleiri á bráðamóttökuna en í venjulegu árferði.

„Það er bara venjulegt ástand í samfélaginu núna. Ég minni á að bráðaþjónusta þarf alltaf að hafa viðbragð til þess að bregðast við álagstoppum. Á venjulegum degi ætti bráðamóttakan að vera hálftóm og róleg, til þess að við getum veitt skjóta bráðaþjónustu, en þannig er þetta því miður ekki,“ segir Hjalti í samtali við mbl.is.

„Undirmönnunin er bara þannig að við höfum ekki þá starfskrafta sem þarf til að sinna þessu eins vel og við viljum,“ bætir hann við.

Mjög mikið álag er nú á bráðamóttökunni vegna undirmönnunar.
Mjög mikið álag er nú á bráðamóttökunni vegna undirmönnunar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Erfitt að sinna þeim verkefnum sem þarf

Hjalti bendir á að ekki hafi verið brugðist við því í langan tíma að byggja upp heilbrigðisþjónustuna á Íslandi. Því sé orðið mjög erfitt að sinna þeim verkefnum sem þurfi að sinna í dag, hvort heldur sem eru á bráðamóttöku, læknavakt, heilsugæslu og víðar.

Kvarnast hafi verulega úr hópi hjúkrunarfræðinga á bráðamóttökunni, en unnið sé að því hörðum höndum innan stjórnar spítalans og ráðuneytisins að leysa úr því.

„Það hefur hingað til ekki gengið nógu hratt til að við náum að leysa úr stöðunni. Þess vegna er bráðamóttakan því miður undirmönnuð eins og er. Þar er starfsfólk að gera sitt besta til að sinna öllum og sérstaklega leggja áherslu á þau sem eru bráðveik og alvarlega slösuð.“

Sjúklingum hætta búin

Spurður hvort ástandið sé þannig að sjúklingum sé hætta búin, segir Hjalti:

„Það er löngu búið að lýsa því yfir að mönnun í heilbrigðiskerfinu er með þeim hætti að það er ekki hægt að veita fullnægjandi þjónustu og það felur í sér að sjúklingum er hætta búin. Það er engin leið að sinna sjúklingum innan tímamarka með viðeigandi virðingu fyrir persónuvernd, með því að taka sjúkrasögu á ganginum, eða gæta með fullnægjandi hætti að sóttvörnum.“

Mikilvægt er að fólk leiti á bráðamóttöku telji það lífshættulegt …
Mikilvægt er að fólk leiti á bráðamóttöku telji það lífshættulegt eða hættulegt ástand í gangi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann hefur áhyggjur af því að ástandið eigi eftir að versna enn frekar.

„Ég hef því miður áhyggjur af því að það muni enn kvarnast úr hópi hjúkrunarfræðinga á deildinni og það er afar brýnt að það sé brugðist við því. Hlustað á athugasemdir hjúkrunarfræðinga, sem þarf til að hægt sé að reka þessa þjónustu með fullnægjandi hætti.“

Hjalti segir það ekki vandamál að fólk sé að leita á bráðamóttökuna að óþörfu. „Flest þeirra sem koma til okkar þurfa þess. Við minnum á að ef fólk heldur að það sé lífshættulegt eða hættulegt ástand í gangi, eða ef það er með bráðalvarleg einkenni, þá á það ekki að hika við að koma á bráðamóttöku. Hins vegar ef það er með þekktan vanda þá er yfirleitt alltaf betra að leita í sérhæfðari þjónustu. Bráðamóttakan er fyrir bráð og óljós einkenni.“

mbl.is