Þverpólitísk tillaga um hugvíkkandi efni

Hugvíkkandi efnið sílósíbín er virka efnið í um 250 mismunandi …
Hugvíkkandi efnið sílósíbín er virka efnið í um 250 mismunandi sveppategundum. mbl.is/Ómar Óskarsson

22 alþingismenn úr sjö flokkum leggja fram þingsályktunartillögu um að breytingar verði gerðar til að heimila rannsóknir og tilraunir með hugvíkkandi efnið sílósíbín í geðlækningaskyni.

Flutningsmenn tillögunnar tilheyra öllum þingflokkum nema Vinstri-grænum.

Í tillögunni kemur fram að hugvíkkandi efni á borð við sílósíbín (psilocybin), sem er virka efnið í um 250 mismunandi sveppategundum, falli undir skilgreiningu 1. mgr. 2. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, og að varsla slíkra efna sé þar af leiðandi óheimil með gildandi lögum.

Síðustu ár hafi rannsóknum á hugvíkkandi efnum, sér í lagi sílósíbíni, fleygt fram samhliða aukinni notkun efnanna. 

Tillögur ráðherra verði tilbúnar á vorþingi

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra, í samstarfi við aðra ráðherra er málið snertir, að undirbúa og leggja til nauðsynlegar breytingar, hvort sem er á lögum, reglugerðum eða með öðrum hætti, sem heimila rannsóknir og tilraunir með hugvíkkandi efnið sílósíbín í geðlækningaskyni og skapa skýra umgjörð fyrir sérhæfða meðferðaraðila um notkun efnisins í þeim tilgangi,“ segir í tillögunni.

„Tillögur ráðherra liggi fyrir eigi síðar en á vorþingi 2023,“ er enn fremur lagt til.

Yfirlýst markmið tillögunnar er að Ísland verði leiðandi í rannsóknum á gagnsemi hugvíkkandi efna í geðlækningaskyni.

mbl.is