Deloitte sýknað af bótakröfu fyrrum eiganda

Landsréttur staðfesti sýknudóm héraðsdóms.
Landsréttur staðfesti sýknudóm héraðsdóms. mbl.is/RAX

Landsréttur staðfesti í gær sýknudóm héraðsdóms í máli Ágústs Heimis Ólafssonar gegn ráðgjafar- og endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte.

Krafði Ágúst, sem var fyrrum starfsmaður og eigandi hjá Deloitte, fyrirtækið um skaðabætur og byggði á því að ráðningarsamningsákvæði um samkeppnistakmarkanir hafi verið saknæmt og ólögmætt, sem og beiting Deloitte á ákvæðinu eftir starfslok hans.

Ákvæðið ekki víðtækara en nauðsynlegt var

Landsréttur komst að því að Ágúst hafi gegnt lykilstöðu hjá Deloitte og að staða hans væri önnur en almennra starfsmanna. Þá hafi takmarkanir á atvinnuþátttöku hans eftir starfslok ekki einungis leitt af ráðningarsamningi hans heldur hafi sams konar ákvæði verið að finna í samkomulagi annarra eigenda móðurfélags Deloitte.

Þó taldi Landsréttur Ágúst ekki hafa sýnt fram á að ákvæðið hafi verið víðtækara en nauðsynlegt var til að varna samkeppni né að atvinnufrelsi hans hafi verið skert með ósanngjörnum hætti.

Auk þess var Ágúst ekki talinn hafa uppfyllt lágmarksskilyrði til sönnunar á því að hann hafi orðið fyrir því tjóni sem kröfur hans miðuðu við. Var hinn áfrýjaði dómur því staðfestur og Deloitte sýknað af öllum kröfum hans.

mbl.is