Kaupa ekki niðursuðudósir og olíu

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í gær.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýbirt skýrsla um nauðsynlegar birgðir til þess að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættutímum er löngu tímabær að mati Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Þjóðaröryggisráð ákvað að fela starfshópi að vinna skýrsluna í kjölfar skýrslu ráðsins sem var unnin á síðasta ári.

„Ég hef samþykkt að eiga umræðu á Alþingi um þessa skýrslu af því að það eru stór mál þarna undir hvað varðar matvæla- og fæðuöryggi svo dæmi sé tekið. Ég lít á þetta sem ótvíræðan hvata til aukinnar innlendrar framleiðslu á matvælum. Ég vek athygli að á þingmálaskrá umhverfisráðherra er frumvarp um viðmiðunarmagn eldsneytisbirgða sem er eiginlega bein afleiðing af þessu þannig að þetta er mjög tímabær vinna tel ég vera,“ segir Katrín, sem var spurð út í skýrsluna að loknum ríkisstjórnarfundi í gær.

Frá bráðamóttöku Landspítalans.
Frá bráðamóttöku Landspítalans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í skýrslunni er lagt til grundvallar að birgðir á borð við matvæli og aðföng til matvælaframleiðslu, jarðefnaeldsneyti, ásamt lyfjum og lækningatækjum, þurfi að vera tiltækar til þess að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættustundu svo að unnt sé að vernda líf og heilsu almennings, tryggja órofa virkni mikilvægra innviða samfélagsins og nauðsynlega þjónustu.

Norrænt samstarf við lyfjainnkaup

Fram kemur að lyfjabirgðir hafi farið minnkandi síðustu ár hérlendis, sem sé áskorun á hættustundu. Tryggja þurfi aðgang Íslendinga að eftirsóttum lyfjum á slíkum tímum í samvinnu við erlend ríki, þar á meðal norræn. Katrín segir Ísland hafa átt mjög náið samstarf við hin Norðurlöndin, meðal annars við Svía í tengslum við bóluefnainnkaup. Lengi hafi verið rætt um það á norrænum vettvangi að lyfjainnkaup gætu orðið hagkvæmari ef ráðist yrði í aukið norrænt samstarf í þeim efnum.

„Það hafa verið ráðist í ákveðnar hindranir í þeim vegi en um leið ótvíræðir kostir, kannski ekki síst fyrir minni þjóðir að taka þátt í slíku norrænu samstarfi um sameiginlegan lyfjainnflutning þar sem regluverkið er tiltölulega svipað,“ segir hún.

Eldsneyti.
Eldsneyti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gert er ráð fyrir að vinnu í tengslum við skýrsluna verði lokið á vettvangi ráðuneytanna á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. Ráðuneytin eru öll komin af stað, að sögn Katrínar, og meðal annars mun heilbrigðisráðuneytið ræða við lyfjafyrirtæki, umhverfisráðuneytið við olíufyrirtæki og matvælaráðuneytið við sitt fólk.

Vanir að panta og fá tveimur dögum seinna

Um ábendingar og næstu skref í skýrslunni kemur m.a. fram að lögfest verði 90 daga lágmarksviðmið olíubirgða hér á landi, en samkvæmt greiningu Orkustofnunar duga aðgengilegar orkubirgðir í lok hvers árs fyrir um 20 til 50 daga eldsneytisþörf miðað við meðalnotkun þess árs.

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum að horfa á hvernig aðrar þjóðir hafa gert þetta og þær hafa gert þetta með þessu mikla samráði og tali við þriðja geirann og einkageirann. Við vinnum þetta ekki þannig að ríkið fari bara og kaupi inn mjög mikið af niðursuðudósum og olíu og geymi það einhvers staðar. Það er ekki endilega skynsamlegasta leiðin,“ greinir Katrín frá og segir Íslendinga hafa vanist því að geta pantað hluti og fengið þá tveimur dögum seinna. „ Svo vitum við að það getur ýmislegt gerst eins og við sáum í heimsfaraldri og sjáum núna í stríðinu [í Úkraínu]. Það er að mínu viti algjörlega nauðsynlegt að við setjum okkur viðmið án þess að við séum að reisa okkur hurðarás um öxl heldur.“

Hún segir hlutverk ríkisstjórnarinnar vera að knýja þessa vinnu áfram og tryggja að ávallt séu til miðlægar upplýsinga um birgðastöðuna, sem hafi ekki verið raunin hingað til.

mbl.is