Hann vildi gera iðrun og yfirbót

Jóhannes Norðfjörð situr á reiðhjólinu sem hann flutti inn, hið …
Jóhannes Norðfjörð situr á reiðhjólinu sem hann flutti inn, hið fyrsta á Norðurlandi og hjá standa Arent Claessen og Ólafur Ingimar Sigvaldason Blöndal. Myndin er tekin af Daníel Davíðssyni ljósmyndara, á Sauðárkróki árið 1901. Fyrirtæki sem hann stofnaði árið 1902 er enn starfandi, nú undir nafni Nordgold.

Í hundrað og tuttugu ár hefur fyrirtækið Nordgold, sem áður hét Jóhannes Norðfjörð, verið starfrækt, og það af fjórum ættliðum í beinan karllegg. Sæmundur Norðfjörð er núverandi eigandi og framkvæmdastjóri, en hann tók við fyrirtækinu af föður sínum Kjartani sem tók við af föður sínum Wilhelm sem tók við af föður sínum Jóhannesi Norðfjörð. 

Önnur og þriðja kynslóð, þeir Wilhelm Norðfjörð og Kjartan Norðfjörð, …
Önnur og þriðja kynslóð, þeir Wilhelm Norðfjörð og Kjartan Norðfjörð, sjást hér ásamt Kurt Wanzenried framkvæmdastjóra Alpina.

Hamhleypa til verka

„Hann hafði áhuga á úrsmíði sem ungur maður og fór til Noregs í nám. Svo kom hann heim og hóf starfsemi á Sauðárkróki,“ segir Sæmundur, en langafi hans hafði nóg að gera á Sauðárkróki.

Langafi var greinilega hamhleypa til verka og byrjar í alls konar innflutningi og rekur hálfgerða kjörbúð líka. Hann er frumkvöðull að því leyti að hann flytur inn fyrsta reiðhjólið til Norðurlands, en síðar opnaði hann úra- og skartgripaverslun í Bankastræti 12, verkstæði og líka reiðhjólaleigu. 

Játaði innbrot tuttugu árum síðar

Sæmundur og segist vel muna eftir afa sínum og rifjar upp eftirminnileg atvik.

„Það voru þó nokkur innbrot í verslunina. Í eitt sinn hafði verið brotinn búðargluggi og stolið úr honum. Það mál upplýstist ekki. En rúmum tuttugu árum síðar kom ansi lúpulegur maður að hitta afa til að upplýsa að það hafi verið hann sem var þjófurinn. Hann vildi gera iðrun og yfirbót.

Hann var inni hjá afa í rúma tvo tíma og þeir enduðu á að skála í koníaki og skildu sem mestu mátar. Ríflega tuttugu árum áður hafði maðurinn verið ungur stúdent, fullur niðri í bæ, og hafði í bríaríi brotið gluggann og stolið skartinu. Hann hafði burðast með samviskubit æ síðan. Og það var dæmigert fyrir afa að fyrirgefa honum, enda ljúfur maður.“

Sæmundur Norðfjörð, fjórði ættliður í beinan karllegg, rekur fyrirtækið um …
Sæmundur Norðfjörð, fjórði ættliður í beinan karllegg, rekur fyrirtækið um þessar mundir, en það þjónustar úra- og skartgripaverslanir landsins. Fyrirtækið var stofnað 1902 og fagnar því 120 ára afmæli á árinu.

Sæmundur hyggst halda upp á 120 ára afmælið með því að efna til veislu um næstu helgi fyrir fjölskyldu og viðskiptavini. Hann segist ekki vita hvort fyrirtækið nái 200 ára aldri, þó það sé auðvitað aldrei að vita, en býst síður við að sonur sinn taki við eftir sinn dag.

Ítarlegt viðtal er við Sæmund í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »