Lenti næstum undir bíl eftir árás

María Ögn er hjólaþjálfari, margfaldur Íslandsmeistari í hinum ýmsu hjólagreinum …
María Ögn er hjólaþjálfari, margfaldur Íslandsmeistari í hinum ýmsu hjólagreinum og hefur komið að ráðgjöf við skipulagningu hjólreiðainnviða. Ljósmynd/Facebook

Litlu mátti muna að María Ögn Guðmundsdóttir, hjólreiðakona og þjálfari, lenti í lífshættulegu slysi vorið 2020 þegar farþegi í bíl réðst á kærasta hennar þar sem þau voru að hjóla frá Þingvöllum ásamt vini þeirra.

Í öllum hamaganginum lenti María aftan á hjóli kærasta síns, missti jafnvægið og hafnaði næstum undir bíl. 

María greindi frá þessari lífsreynslu á Facebook-hópnum Samgönguhjólreiðar. Segist hún lengi hafa hugsað sig um hvort hún ætti að segja frá atvikinu en hafi ekki verið tilbúin til þess fyrr en nú. Þá hafi hún ekki viljað vekja ótta meðal hjólreiðafólks.

„Ég er ekki búin að átta mig á því hvað fólk getur hatað hjólreiðafólk mikið,“ segir María í samtali við mbl.is. 

María kveðst enn vera jafna sig á atvikinu en hún heldur þó áfram að hjóla, enda er það starfið hennar. Hún segist oft hafa lent í leiðinlegum atvikum á hjólinu, þetta atvik hafi þó verið annars eðlis.

Sló Hafstein í andlitið með snúru

Að sögn Maríu hafði hjólaferð þeirra vina gengið vel þangað til að leið þeirra lá aftur í bæinn. Hjóluðu þau öll út við hægri kant vegsins. Hafsteinn Ægir Geirsson, kærasti Maríu var fremstur, María fyrir aftan hann og vinur þeirra aðeins fyrir aftan þau. Þegar hópurinn nálgast afleggjara að Grafning þá nálgast þau þrír bílar.

Farþegi bílsins sem var fyrir miðju opnar gluggann og slær Hafstein nokkrum sinnum í andlitið og öxlina með hvítri símahleðslusnúru eða heyrnatólum. Að sögn Maríu verður það til þess að hann fipast allsvakalega. Hann nær þó að halda sér á hjólinu en framdekk á hjóli Maríu rekst í hjól Hafsteins. Verður það til þess að hún missir jafnvægið og er nálægt því að detta í götuna í áttina að bílnum sem var fyrir aftan. Lukkulega nær María að setja vinstri fót sinn út í loft og nær þannig að halda jafnvæginu, snertir hún því bílinn með fætinum í stað þess að lenda undir honum.

María og Hafsteinn áður en þau lögðu í ferðina.
María og Hafsteinn áður en þau lögðu í ferðina. Ljósmynd/María Ögn

Náði bílnúmerinu

Vinur þeirra, sem var aðeins fyrir aftan Maríu og Hafstein, nær bílnúmeri bílsins. Því næst er hringt í lögregluna og hún beðin um að koma frá Mosfellsbæ til að koma á móti bílnum og stoppa hann. Segir María að símtalinu hafi ekki verið tekið alvarlega og enginn frá lögreglunni komið.

Í kjölfarið segir María að líkamsárásin hafi verið kærð til lögreglu. Þá hafi pilturinn, sem María segir hafa framið árásina, mætt til yfirheyrslu með föður sínum sem var skráður eigandi bílsins. Málið fór þó ekki lengra þar sem pilturinn sagðist hafa verið sofandi í bifreiðinni. Að sögn María sagði pilturinn að hann hafi ekki vitað til þess að atvikið hafi átt sér stað. 

mbl.is

Bloggað um fréttina