Andlát: Erla Þorsteinsdóttir

Erla Þorsteinsdóttir.
Erla Þorsteinsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Erla Þorsteinsdóttir söngkona er látin 89 ára að aldri. Hún lést á hjúkrunarheimili í Holbæk Danmörku þann 25 september. 

Söngferill Erlu, sem var þekkt sem stúlkan með lævirkjaröddina, spannaði hins vegar aðeins fimm ár en hún hætti að syngja 26 ára gömul til að sinna eiginmanni og fjölskyldu. Eiginmaður Erlu var Poul Dancell, en hann lést árið 1989. Erla og Poul eignuðust fjögur börn: Paul, Evu Ingibjörgu, Stefan Thorstein og David Konrad. Synirnir þrír eru allir búsettir í Danmörku en dóttirin býr í Hollandi, að því er segir í tilkynningu frá aðstandendum.

Erla Þorsteinsdóttir á sínum yngri árum.
Erla Þorsteinsdóttir á sínum yngri árum. Ljósmynd/Aðsend

Erla fæddist á Sauðárkróki 1933 og hóf snemma að syngja og leika á gítar á heimaslóðum en gítarinn hafði hún fengið í fermingargjöf. Átján ára fluttist hún til Danmerkur til að starfa við þjónustu en söngferill hennar hófst mjög snögglega og fyrir alvöru er henni bauðst að syngja og leika á gítar í dönskum útvarpsþætti snemma árs 1954, það voru lögin Til eru fræ og Kvöldið var heiðskírt og hljótt. Í beinu framhaldi opnuðust henni fjölmargar gáttir og tækifæri til að koma sér á framfæri, og í kjölfarið einnig að syngja inn á plötur.

Meðal laga sem Erla söng eru t.d Þrek og tár, Litli tónlistarmaðurinn, Kata rokkar, og Vagg og velta sem var svo frægt að vera bannað í ríkisútvarpinu Þrátt fyrir að afkasta miklu spannar ferill Erlu ekki nema rétt um hálfan áratug, sá tími dugði henni þó vel til að gera hana af einni ástsælustu söngkonu landsins og víst er að síðari tíma kynslóðir þekkja tónlist hennar enn í dag, hafa margir tekið lög hennar til endurvinnslu, má þar t.d. nefna Björk og Tríó Guðmundar Ingólfssonar á plötunni Gling gló.

Tvöföld safnplata, Stúlkan með lævirkjaröddina, kom út árið 2000 og er á henni að finna flest af lögum Erlu. Lög hennar hafa ennfremur ratað inn á ýmsar safnplötur í seinni tíð, s.s. Stelpurnar okkar, Óskastundin 4, Óskalögin 2, Aftur til fortíðar, Svona var… seríunnar og Bestu lög 6. áratugarins

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert