Fararstjóri enn hjá félaginu þrátt fyrir kvartanir

Kristín segist hafa vitneskju um að fjöldi kvartana hafi borist …
Kristín segist hafa vitneskju um að fjöldi kvartana hafi borist vegna ákveðins fararstjóra hjá félaginu, en þrátt fyrir það sé hann enn að störfum. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristín I. Pálsdóttir, félagi í Ferðafélagi Íslands og þáttakandi í Kvennakrafti, segist hafa vitneskju um að fjöldi kvartana hafi borist vegna ákveðins fararstjóra hjá félaginu, en þrátt fyrir það sé hann enn að störfum.

Í færslu sem hún birti á Facebook-síðu sinni í morgun ásamt bréfi til stjórnar félagsins, segist hún hafa talað við einn þolanda hans um helgina og að sú kona hafi sent formlega kvörtun til félagsins vegna mjög alvarlegs atviks í ferð með honum fyrir nokkrum árum, en hún hafi aldrei fengið svar frá félaginu.

„Þá er augljóst af yfirlýsingum stjórnar að lítill skilningur er hjá þeim sem eftir sitja í stjórn á ofbeldismálum og afleiðingum þess þegar ekki er tekið á slíkum málum á markvissan hátt með hag þolenda í huga. Í stað þessa að sýna þolendum fararstjóra félagsins, sem ég veit að eru þó nokkrir, þá virðingu að sinna þessum málum af kostgæfni virðist sem samhygðin liggi hjá þeim sem næst standa stjórnarmönnunum, þ.e. gerendum sem sumir virðast hafa fengið ný tækifæri til brjóta af sér,“ segir Kristín í færslunni.

Sér sig knúna til að lýsa yfir vonbrigðum

Hún segist sjá sig knúna til að lýsa yfir gríðarlegum vonbrigðum með viðbrögð stjórnar við yfirlýsingu Önnu Dóru Sæþórsdóttur, fyrrverandi forseta félagsins.

Anna Dóra sagði af sér í síðustu viku því hún vildi ekki starfa í félagi þar sem réðu ríkjum stjórnarhættir og siðferðisleg gildi sem gengu þvert á hennar eigin gildi, eins og hún orðaði það. Í færslu sem hún birti á Facebook í kjölfarið gagnrýndi hún meðal annars að stjórnin hefði ekki brugðist við alvarlegum málum innan félagsins er vörðuðu áreitni og gróft kynferðislegt ofbeldi.

Þá sagði hún að nýlega hefðu henni borist upplýsingar um mál sem snerti stjórn­ar­mann í fé­lag­inu og sneri að áreitni og ósæmi­legri hegðun í skipu­lagðri ferð á veg­um fé­lags­ins. Þegar hún óskaði eft­ir upp­lýs­ing­um hafi viðbrögðin verið að hafa uppi óbein­ar hót­an­ir gagn­vart fara­stjór­an­um og til­kynna vin­konu þeirr­ar sem varð fyr­ir áreitn­inni að það myndi hafa af­leiðing­ar ef málið yrði rætt frek­ar.

Óskar eftir svörum frá félaginu

Í pósti sem nýr forseti félagsins, Sigrún Valbergsdóttir, sendi fyrir hönd stjórnarinnar til félagsfólks í síðustu viku, var meðal annars fullyrt að Anna Dóra hefði viðhaft ólýðræðisleg vinnubrögð í forsetatíð sinni. Jafnframt var fullyrt öll mál, nema eitt, er varða kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi eða einelti, sem komið hefðu upp innan félagsins á síðustu árum, hefðu verið til lykta leidd.

Kristín segist ekki hafa sagt sig úr félaginu, heldur ætli hún að reyna að beita sér sem félagsmaður, krefjast svara og mæta á félagsfund þann 27. október.

Þá óskar hún eftir svörum við fimm spurningum, meðal annars hvort það sé rétt að framkvæmdastjóri og gjaldkeri félagsins hafi hótað fararstjóra og þolanda í tengslum við ósæmilega hegðun gjaldkerans, og hvernig stjórnin geti látið slíkt viðgangast.

Einnig spyr hún hve margar kvartanir félaginu hafi borist vegna fararstjórans sem minnst er á í upphafi. Færslu Kristínar má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Kristín óskar eftir svörum frá stjórn Ferðafélags Íslands varðandi ýmis …
Kristín óskar eftir svörum frá stjórn Ferðafélags Íslands varðandi ýmis mál. mbl.is/Ásdís
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert