Gagnrýna vinnubrögð lögreglu í hryðjuverkamálinu

Munir sem lögreglan lagði hald á við handtöku mannanna.
Munir sem lögreglan lagði hald á við handtöku mannanna. mbl.is/Hólmfríður María

Verjendur mannanna sem sæta gæsluvarðhaldi vegna gruns um skipulagningu á hryðjuverkum og vopnalagabrot, gagnrýna vinnubrögð lögreglunnar í málinu harðlega í samtali við RÚV

Þar segir Einar Oddur Sigurðsson og Ómar Örn Bjarnþórsson, verjendur mannanna, að skjólstæðingar þeirra hafi verið í einangrun síðan þeir voru handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald fyrir tæplega tveimur vikum. 

Þá segir Einar lögregluna hafa farið frjálslega eða óvarlega með stór hugtök. Enn frekar segist hann eiga erfitt með að trúa þeim ásökunum sem bornar séu á skjólstæðing sinn. 

Ekki er farið nánar út í hvaða hugtök Einar Oddur telur lögregluna nota óvarlega en fram hefur komið í tilkynningum lögreglu að mennirnir sem handteknir voru, hafi verið taldir hættulegir og vopnaðir. Þá lýsti lögreglan því yfir, daginn eftir handtöku, að mennirnir hafi verið taldir skipuleggja hryðjuverk. 

mbl.is