Hæstu styrkirnir í Kópavogi

Mörg sveitarfélög styrkja tómstundastarf barna með svokölluðum frístundastyrkjum eða hvatapeningum sem er yfirleitt ákveðin peningaupphæð á ári sem fylgir hverju barni og er ætluð til niðurgreiðslu á tómstundastarfi. Af 20 sveitarfélögum sem úttekt verðlagseftirlits ASÍ nær til er Kópavogsbær með hæstu frístundastyrkina, 56.000 kr. á ári. Fjarðabyggð er með lægstu styrkina, 10.000 kr. á ári en sveitarfélagið bauð ekki upp á frístundastyrki árið 2020. Grindavíkurbær og Ísafjarðarbær bjóða ekki upp á frístundastyrki.

Úttektin nær eingöngu til frístundastyrkja og ekki er tekið tillit til annars konar stuðnings við íþróttastarf, að því er fram kemur á vef ASÍ.

Þá kemur fram, að ypphæð frístundastyrkja hafi hækkað mest hjá Vestmannaeyjabæ, um 15.000 kr. frá árinu 2020. Reykjavíkurborg hafi gefið út að frístundastyrkir hjá sveitarfélaginu muni hækka úr 50.000 kr. á ári í 75.000 kr. á ári um áramót. Hveragerði og Suðurnesjabær bjóða upp á frístundastyrki fyrir lengsta aldursbilið 0-18 ára, en Akureyri og Fjarðabyggð fyrir stysta aldursbilið, 6-17 ára gömul börn og ungmenni.

Upphæð frístundastyrkja hefur hækkað í 8 af 20 sveitarfélögum frá árinu 2020 þegar síðasta úttekt á frístundastyrkjum var gerð. Styrkirnir hafa hlutfallslega hækkað mest hjá Norðurþingi, um 46% eða um 5.500 kr., en í krónum talið hafa styrkirnir hækkað mest hjá Vestmannaeyjabæ, um 15.000 kr. eða 43%. Engir frístundastyrkir voru í boði árið 2020 hjá Fjarðabyggð en þeir eru 10.000 kr. núna og þá hækkuðu styrkirnir um 10.000 kr. eða 29% hjá bæði Árborg og Reykjanesbæ.

Reykjavíkurborg hefur samþykkt að hækka frístundastyrk úr 50.000 kr. í 75.000 kr. á ári eða um 50% og mun breytingin taka gildi 1. janúar 2023. Ekki er vitað til þess að önnur sveitarfélög hafi gefið út að frístundstyrkir verði hækkaðir að sögn ASÍ.

Sem fyrr segir, þá er Kópavogur með hæstu frístundastyrkina, 56.000 kr. á ári fyrir hvert barn. Styrkurinn gildir fyrir börn á aldrinum 5-18 ára. Næst hæstu styrkirnir eru hjá Hafnarfjarðarbæ 54.000 kr. á hvert barn en styrknum er skipt niður á mánuði þannig að einungis hluti styrksins er laus til notkunar í mánuði hverjum. Mosfellsbær greiðir 52.000 kr. í tómstundastyrk fyrir fyrsta og annað barn en styrkurinn hækkar upp í 60.000 kr. fyrir þriðja barn. Styrkirnir hækka einnig hjá Akranesi fyrir annað og þriðja barn.

Nánar á vef ASÍ. 

mbl.is