Helmingur uppfyllir ekki kröfur um reykköfun

Slökkviliðsmenn að störfum.
Slökkviliðsmenn að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um 50% slökkviliða uppfylla ekki settar kröfur til að geta sinnt reykköfun og slökkvistarfi innanhúss, ýmist með tilliti til búnaðar, þjálfunar, menntunar eða hæfnisskilyrða starfsmanna. 64% slökkviliða voru við úttekt í fyrra ekki með samþykkta brunavarnaáætlun. Staða brunavarnaáætlana var hvað lökust á Vestfjörðum og Norðvesturlandi þar sem aðeins tvö slökkvilið höfðu gilda áætlun.

Þetta kemur fram í skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um stöðu slökkviliða á Íslandi. Skýrslan var unnin í framhaldi af úttektum stofnunarinnar á starfsemi 34 slökkviliða í 68 sveitarfélögum sem voru framkvæmdar á síðasta ári.

Skýrslan var kynnt á fundi í Borgartúni í morgun.
Skýrslan var kynnt á fundi í Borgartúni í morgun. mbl.is/Arnþór

Fram kemur að ekki eru öll sveitarfélög á Íslandi með slökkvilið sem er þannig skipulagt, mannað, menntað og þjálfað að það geti leyst af hendi með fullnægjandi hætti lögbundin verkefni. Ekki hafa öll slökkvilið til umráða fullnægjandi búnað til að geta sinnt verkefnum sínum. Húsnæði slökkviliða, með tilliti til baðaðstöðu starfsmanna, geymslu og þrifa á hlífðarfatnaði og búnaði þarfnast úrbóta að einhverju leyti í flestum landshlutum.

Stjórnendavaktir ekki tryggðar

Á Íslandi eru fjögur slökkvilið sem hafa sólarhringsviðveru mannskapar á stöð, fimm hafa mannaða dagvakt og 24 slökkvilið eru eingöngu mönnuð útkallsliði.

Við úttektir voru níu slökkvilið á Íslandi með slökkviliðsstjóra í einungis 35% starfshlutfalli eða lægra. Þó hefur slökkviliðsstjórum í fullu starfi fjölgað síðan á árunum 2013-2015. Í ljósi ábyrgðarhlutverks skal slökkviliðsstjóri eða staðgengill hans ávallt vera á vakt eða á bakvakt og til staðar á starfssvæði slökkviliðsins. Hjá 30% slökkviliða landsins eru slíkar stjórnendavaktir ekki tryggðar, að því er kemur fram í skýrslunni.

Slökkviliðsmenn að störfum.
Slökkviliðsmenn að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þarf að tryggja nægjanlegt vatn

Sveitarfélögum er skylt að sjá til þess að nægilegt vatn og vatnsþrýstingur sé fyrir hendi til slökkvistarfs og að til staðar sé sérstakur slökkvibúnaður þar sem hans er krafist. 55% slökkviliðsstjóra telja að þörf sé á að gera úrbætur á vatnsveitu og dreifikerfi á sínu starfssvæði til að tryggja að nægjanlegt vatn og vatnsþrýstingur sé til staðar til slökkvistarfs.

Frá kynningu á skýrslunni í morgun.
Frá kynningu á skýrslunni í morgun. mbl.is/Arnþór

Tillögur að úrbótum

Fram kemur í skýrslunni að til ýmissa aðgerða þurfi að grípa, til að bregðast við þeirri stöðu sem er uppi hjá slökkviliðum landsins. Helstu tillögur HMS um úrbætur eru eftirtaldar:

  • Ráðast þarf í nánari greiningu á starfsemi slökkviliða á grundvelli fyrirliggjandi úttekta og vinna að því að samræma og samþætta brunavarnir og önnur lögbundin verkefni.
  • Sveitarfélög þurfa að huga að frekari samstarfi og sameiningu minni slökkviliða sem hafa ekki burði til að uppfylla lögbundnar kröfur og/eða takast á við stóra áhættuþætti á þeirra svæðum.
  • Einnig verður áfram fylgt eftir gerð brunavarnaáætlana sveitarfélaga og að starfað sé í samræmi við þær.
  • Tryggja þarf að stjórnendavaktir séu tryggðar á öllum starfssvæðum slökkviliða og að starfshlutfall slökkviliðsstjóra sé í samræmi við ábyrgð hans og valdheimildir.
  • Þá er lagt til að stuðlað verði að uppbyggingu á bað- og afeitrunaraðstöðu slökkviliða og bæta almenna aðstöðu til þrifa á hlífðarfatnaði og öðrum búnaði slökkviliða á slökkvistöð.
mbl.is