„Virðast ekki hafa burði til að hafa þessa hluti í lagi“

Birgir Finnsson varaslökkviliðsstjóri fagnar úttekt HMS og segir það vissulega …
Birgir Finnsson varaslökkviliðsstjóri fagnar úttekt HMS og segir það vissulega rétt að aðstöðumunur sé á slökkviliðum eftir landssvæðum. Spili þar meðal annars inn í aðgangur að læknisskoðun. „Það virðist stöðugt þurfa að minna á að þetta er lagaleg skylda,“ segir Birgir um aðbúnað slökkviliða landsins. mbl.is/Árni Sæberg

„Við fögnum auðvitað bara þessari úttekt, þar hefur ítarleg og góð vinna verið unnin og það er mikilvægt að dregið sé fram hvernig staða þessara mála sé í landinu. Það hjálpar okkur öllum, hvort sem hlutirnir eru í þokkalega góðu lagi, góðu eða ekki góðu,“ segir Birgir Finnsson, varaslökkviliðsstjóri slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.

Til umræðu er frétt mbl.is í hádeginu í dag þar sem greint var frá nýrri skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um stöðu slökkviliða á Íslandi og tók úttekt stofnunarinnar til starfsemi 34 slökkviliða í 68 sveitarfélögum.

Eins og lesa má í ívitnaðri frétt komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að langt væri í land með að öll sveitarfélög á Íslandi hefðu á að skipa slökkviliði sem væri þannig skipulagt, menntað og þjálfað að það gæti leyst af hendi með fullnægjandi hætti þau verkefni er þeim væru lögboðin, þar á meðal hvað reykköfun snertir.

„Mörg minni slökkviliðin virðast ekki hafa burði til að hafa þessi mál í lagi, því miður,“ segir Birgir og bætir því við að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem úttekt sé gerð og auðvitað sé málið hið bagalegasta. „Það virðist stöðugt þurfa að minna á að þetta er lagaleg skylda og þetta snýr oftast að þessum minni slökkviliðum.“

Öryggi starfsmanna í öndvegi

Segir Birgir gjarnan erfiðara um vik með þætti á borð við læknisskoðanir og fleira hjá fámennari slökkviliðunum og játar aðspurður að alveg örugglega sé þarna spurning um peninga eins og svo víða. „Þetta snýst bara um þessa forgangsröðun þeirrar þjónustu sem sveitarfélögin þurfa að sinna,“ segir Birgir og er þvínæst spurður um stöðu mála á höfuðborgarsvæðinu.

„Við stöndum vel gagnvart þessum þætti og líka bara almennt séð. Stærðin hjálpar okkur við að halda okkur á því reki að hlutirnir séu í lagi hjá okkur. Auðvitað er alltaf eitthvað sem betur má fara en það hefur ekki snúið að þessu og við leggjum mikla áherslu á að hafa þau mál sem snúa að öryggi starfsmanna í góðu lagi,“ segir Birgir og kveðst ekki vita til þess að nein alvarleg tilfelli hafi sprottið af þeim annmörkum sem tíundaðir eru í skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

mbl.is