Brotið var þaulskipulagt

mbl.is/Þorsteinn

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í eins og hálfs árs fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot.

Maðurinn, Robert Green, var ákærður af héraðssaksóknara í september fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa í apríl á þessu ári staðið að innflutningi á samtals 13.986 stykkjum af töflum sem innihéldu flúbrómazólam. Töflunum var ætlað til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Green flutti efnin í ferðatösku í flugi frá Manchester á Englandi til Íslands. 

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að maðurinn hafi skýlaust játað sök fyrir dómi. Þá segir að maðurinn hafi ekki áður verið dæmdur til refsingar hér á landi. 

„Samkvæmt matsgerð rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, sem liggur fyrir í málinu, reyndust töflurnar sem ákærði flutti til landsins innihalda flúbrómazólam. Einnig kemur þar fram að efnið er skylt flokki lyfja sem kallast benzódíazepín sem hafi m.a. róandi og kvíðastillandi verkun. Væri efnið ekki á lyfjamarkaði og hefði lítt verið rannsakað. Það teljist til ávana- og fíkniefna sem eru óheimil á íslensku forráðasvæði,“ segir í dómnum. 

Þá kemur fram, að það hafi verið lagt til grundvallar í málinu að Green hefði hvorki komið að fjármögnun né skipulagningu brotsins. Dómstóllinn segir að við ákvörðun refsingar hafi verið tekið tillit til skýlausrar játningar hans, þess að hann hafi verið samvinnufús við rannsókn málsins hjá lögreglu og hafi ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. 

Dómstóllinn segir aftur á móti að um þaulskipulagt broti hafi verið um að ræða. 

„Til þyngingar lítur dómurinn til umfangs og alvarleika brotsins hvað varðar magn og er sérstaklega litið til þess að efnið var flutt inn í formi taflna í umbúðum sem ranglega báru þess merki að um löglegt lyf væri að ræða,“ segir í dómi héraðsdóms. Vegna alvarleika sakarefnisins var ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna, en til frádráttar dæmdri refsingu kom óslitið gæsluvarðhald sem Green sat í frá 17. apríl til 8. júlí á þessu ári. 

Green var enn fremur dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins, samtals um 2,9 milljónir kr. Þá gerði dómstóllinn töflurnar upptækar. 

mbl.is