Google svaraði Erlendi og eyddi 140 „kaffihúsum“

Erlendur Þorsteinsson.
Erlendur Þorsteinsson. Ljósmynd/Aðsend

Alls hefur nöfnum á 140 kaffihúsum á höfuðborgarsvæðinu sem voru í raun og veru ekki til verið eytt út af Google Maps.

Aðdragandinn er sá að Erlendur S. Þorsteinsson, reiknifræðingur sem starfar hjá CCP, var að skipuleggja kaffihúsaferð á Kársnesinu ásamt öðrum. „Ég er mikill kaffihúsamaður. Það er yndið mitt við hjólreiðar að fara út á malarhjólinu og taka einhvern hring á stígum og koma við á kaffihúsi. Ég þekki þau mjög vel,“ segir Erlendur.

Þegar hann sá að 20 kaffihús voru skráð á Kársnesi áttaði hann sig á því að ekki var allt með felldu á Google Maps. Hann byrjaði að „súmma“ á kortinu og endaði á því að finna þar nöfn á 140 kaffihúsum á höfuðborgarsvæðinu sem ekki voru til í raun og veru. Greindi hann frá uppgötvuninni á Twitter. 

Aðeins á höfuðborgarsvæðinu

Erlendur byrjaði á því að tilkynna Google um fimm slík kaffihús á Kársnesinu og fékk um leið þau svör að nöfnunum hafi verið eytt þaðan út. Þetta segir hann óvenjulegt því venjulega taki það vikur eða mánuði að fá svör frá tæknirisanum. Í þetta sinn hafi svörin greinilega verið sjálfvirk.   

„Þá fór ég að hreinsa til,“ segir Erlendur, sem endaði á því að finna 140 „gervi“-kaffihús. Hann gáði hvort það sama væri uppi á teningnum annars staðar á landinu en komst að því að þetta náði aðeins yfir höfuðborgarsvæðið.

Höfuðstöðvar Google í Kaliforníu.
Höfuðstöðvar Google í Kaliforníu. AFP/Noah Berger

Algjör ráðgáta

Spurður hvers vegna öll þessi íslensku „kaffihús“ hafi verið inni á Google Maps segir Erlendur það vera ráðgátu. Hann hafi engar vísbendingar fundið um að einhver væri að reyna að svindla á fólki, til dæmis með því að fá það til smella á ákveðnar vefsíður og hvetja það til að gera eitthvað, svokallað „call to action“. Tilgangurinn hljóti samt að hafa verið að gabba fólk.

Hann kveðst ætla að kíkja aftur á Google Maps eftir nokkra daga til að athuga hvort eitthvað skrítið á borð við kaffihúsanöfnin ratar aftur þangað inn.

Erlendur varar við netsvindli.
Erlendur varar við netsvindli. Ljósmynd/Unsplash

Fólk láti ekki gabba sig

Erlendur, sem áður starfaði við vírusvarnir, varar fólk engu að síður við því að láta gabbast á netinu þegar það er hvatt til að framkvæma einhverja hluti, til dæmis að borga aftur reikninga. „Þá áttu alltaf að tortryggja það.“

Fannstu gott kaffihús til að heimsækja að lokum?

„Ég er búinn að finna mörg góð kaffihús á Kársnesinu og við ætlum að fara á eitt þeirra,“ segir hann hress og á þar við eitt af sínum uppáhalds kaffihúsum í Gerðasafni.

mbl.is