Gul viðvörun á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra

Gul viðvörun tekur gildi í dag á Vestfjörðum, Ströndum og …
Gul viðvörun tekur gildi í dag á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra. Kort/Veðurstofa Íslands

Gul viðvörun hefur verið gefin út á Vestfjörðum sem tekur gildi klukkan 15 í dag. Spáð er talsverðri eða mikilli rigningu í landshlutanum. Búast má við vexti í ám og lækjum. Auknar líkur eru á skriðuföllum og grjóthruni.

Í kvöld er spáð þar allhvassri norðanátt (13-18 m/s) með rigningu nærri sjávarmáli. Slydda verður eða snjókoma á fjallvegum þar sem búast má við erfiðum akstursskilyrðum.

Á Ströndum og Norðurlandi vestra tekur gul viðvörun gildi klukkan 16 í dag. Þar er spáð talsverðri eða mikilli rigningu. Búast má við vexti í ám og lækjum. Auknar líkur eru á skriðuföllum og grjóthruni. Búast má við erfiðum akstursskilyrðum og á það t.d. við um Öxnadalsheiði og Holtavörðuheiði.

Á Austfjörðum rennur gul viðvörun úr gildi klukkan 10 í dag vegna talsverðrar eða mikillar rigningar.

Allt að 10 stiga hiti

Í dag er spáð norðaustan 5 til 13 metrum á sekúndu með morgninum, en 10-18 um landið vestanvert. Rigning verður víða um land og hiti verður á bilinu 4 til 10 stig. Talsverð úrkoma verður á Vestfjörðum og Norðvesturlandi síðdegis og slydda eða snjókoma á fjallvegum á þeim slóðum í kvöld og bætir í vind. Kólnar víða.

Allhvöss vestlæg átt verður um landið austanvert á morgun, en lægir vestantil. Rigning verður á láglendi fyrir norðan, en slydda eða snjókoma til fjalla. Annars verður að mestu þurrt. Hiti verður á bilinu 3 til 10 stig, hlýjast suðaustantil.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is