„Hausinn sagði go for glory eða go home“

Sigurður Örn Ragnarsson í keppninni í Barcelona á sunnudaginn. Hér …
Sigurður Örn Ragnarsson í keppninni í Barcelona á sunnudaginn. Hér er hann búinn með tæplega 2 km sund, 180 km á hjóli og er að hlaupa heilt maraþonhlaup.

Á sunnudaginn vann Sigurður Örn Ragnarsson þríþrautakeppni í Barcelona á Spáni, en hann tók þar þátt í því sem kallast heill járnkarl og er þetta í fyrsta skiptið sem Íslendingur afrekar að vinna jafn stóra keppni í greininni. Um tvö þúsund tóku þátt í heilum járnkarli.

En hvað er á bak við árangur í jafn svakalegri úthaldskeppni og járnkarl er? Sigurður ræddi við mbl.is í gær, en þá var hann nýbúinn að taka við verðlaunum fyrir sigurinn og farmiða til Kona á Havaí sem sigurinn veitti honum.

Fékk smjörþefinn í Noregi

Sigurður hefur undanfarin ár verið framarlega í styttri vegalengdum en færði sig í heimsfaraldrinum upp í heilan járnkarl. Formlegur undirbúningur og þjálfun fyrir keppnina hefur staðið yfir í um eitt ár og er þetta aðeins einn áfangi í yfir tveggja ára ferðalagi sem felur í sér þátttöku á heimsmeistaramótinu sem fer fram á Havaí í lok október á næsta ári.

Frá níu ára aldri hefur Sigurður stundað sund, en hann verður á árinu 31 árs gamall. Árið 2015 ákvað hann svo að skipta yfir í þríþraut. Fyrst horfði hann til þess að reyna fyrir sér í atvinnumennsku í styttri vegalengdum og fór hann meðal annars til Noregs til að æfa með mörgum af bestu þríþrautaköppum heims í dag. „Ég fékk smjörþefinn þá,“ segir Sigurður.

Úr styttri vegalengdum í heilan járnkarl

Árið 2018 færði hann sig svo í lengri vegalengdir og upp í hálfan járnkarl. Það er kannski rétt að taka það fram hér að hálfur járnkarl er líklega keppni sem væri flestum ofviða, en til að ljúka slíkri keppni þarf að synda tæplega 2 km, hjóla 90 km og hlaupa svo hálft maraþon – allt í einni atrennu. Heill járnkarl er svo tvöföld þessi vegalengd. Sigurður segir að í heimsfaraldinum hafi hann farið að gæla við heilan járnkarl og svo hafi hann látið slag standa og farið að æfa fyrir það.

Sigurður með verðlaunin í gær og farmiðann til Kona á …
Sigurður með verðlaunin í gær og farmiðann til Kona á Havaí.

Íslandsmetið í heilum járnkarli er rétt undir átta og hálfri klukkustund og var það eitt af því sem Sigurður hafði augun á. Til þess að geta klárað heilan járnkarl og hvað þá að eiga séns í að enda ofarlega í keppnum er ekki aðeins nóg að æfa á fullu. Næringar- og drykkjarplan er nauðsynlegt og að passa upp á að orkan haldist í jafnvægi í gegnum gríðarlegt álag í lengri tíma.

Tækni og mælingar nýttar til að ná árangri

Upp á síðkastið hefur orðið æ mikilvægara fyrir þá sem eru framarlega í þríþraut og öðrum úthaldsíþróttum að nýta sér tækni og mælingar til að fá sem besta sýn á styrk- og veikleika sem og að finna út hvaða álag er hægt að keyra á í gegnum keppnina.

Sigurður er ekki alveg óreyndur þessum hugtökum og skipulagi, en samhliða því að starfa sem verkfræðingur er hann einn af eigendum Greenfit, en það er fyrirtæki sem býður íþróttafólki upp á ákveðna „ástandsskoðun“ þar sem meðal annars er hægt að mæla efnaskipti, blóðþrýsting undir álagi og gera lungnamælingu. „Ég hef aðgang að góðri tækni til að mæla svona,“ segir Sigurður um þessa hlið undirbúningsins.

Fór til Englands í vökva- og salttapsmælingu

Hann segist sjálfur hafa kafað nokkuð djúpt í blóðsykursstjórnun og hvernig best sé að halda orkujafnvægi í líkamanum samhliða því að setja upp æfingaálag og mataræði til að hámarka árangur. Þannig segist hann oftast vera mjög nákvæmur með æfingar og æfingaálag. „Ég vil ekki setja tíma í æfingar sem skila manni ekki því sem maður sækist eftir,“ segir hann. Sigurður segist m.a. hafa nýtt sér þetta í undirbúningi fyrir keppnina í Barcelona þegar hann breytti að stórum hluta um æfingaálag. „Ég var alltaf í þeirri trú að mig vantaði æfingar í hárri ákefð (e. high intensity), en mælingar sýndu að mig vantaði frekar tempo æfingar,“ segir Sigurður, en síðarnefndu æfingarnar horfa til þess að bæta langtímaúthald.

Þrátt fyrir aðgang að góðum mælitækjum hér heima lét Sigurður það ekki nægja og hélt fyrr á árinu til Leeds á Englandi þar sem hann fór í nákvæma mælingu til að mæla hversu miklu salti hann væri að tapa undir álagi. Með þær niðurstöður í pokahorninu gat hann áætlað út frá vökvatapi hversu mikið salt hann þarf að taka inn og þar með hvernig best væri að setja upp vökvaáætlun, bæði hversu mikið þurfi að drekka og hversu margar salttöflur hann þurfi að taka.

„Það gekk nánast allt upp 

Eitt er samt að skipuleggja eitthvað niður í öreindir og annað að láta það ganga upp þegar á hólminn er komið. Blaðamanni er því spurn hvernig stóra planið hafi gengið úti í Barcelona. „Það gekk nánast allt upp fyrir utan síðustu 20 kílómetrana,“ segir Sigurður og vísar þar til þess að í seinni hluta maraþonsins hafi aðeins hægt á honum.

Hitinn á keppnisdegi var um 25-26°C og heiðskýrt. Sigurður segir …
Hitinn á keppnisdegi var um 25-26°C og heiðskýrt. Sigurður segir það hafa verið aðeins í heitara lagi, en á næsta ári þarf hann að vera tilbúinn í enn meiri hita á heimsmeistaramótinu.

Sigurður er sem fyrr segir með bakgrunn úr sundi og því kom ekki á óvart að hann hafi verið ofarlega þegar sundið kláraðist. Hann segist hafa átt von á því að vera mögulega meðal tíu efstu, en niðurstaðan var að hann var annar upp úr vatninu. „Ég sá alltaf þennan sem var fyrir framan og var ekki að stressa mig á að hafa hann á undan. Öll keppnin er eftir og þó þú getir grætt hálfa mínútu þarna þá er líka hægt að tapa 5 mínútum á hjólinu á móti ef maður spanderar of mikilli orku í vatninu,“ segir hann.

Niðurstaðan var að Sigurður kom upp úr vatninu á 49:40, sem var 20 sekúndum hraðara en hann hafði áformað. Hann segist hins vegar hafa gefið sér smá tíma í skiptingunni, sest niður og fengið sér næringu og skipt um föt áður en lagt var af stað í 180 km hjólahlutann.

„Ákvað að keyra mína keppni þarna og keyrði grimmt

Vindátt gerði það að verkum að leiðin „út eftir“ var nokkuð ströggl að sögn Sigurðar, en betra á leiðinni til baka. „Ég ákvað að keyra mína keppni þarna og keyrði grimmt,“ segir hann. Fljótlega hafi hann séð keppinaut sinn sem var í fyrsta sæti og svo tekið fram úr honum. „Hausinn sagði go for glory eða go home,“ segir Sigurður þegar hann rifjar þetta augnablik upp fyrir blaðamann.

Þegar hann var orðinn fyrstur var aðeins lögreglan á undan honum sem og upptökumaður á mótorhjóli. „Það var þægilegt að fá svona lögreglufylgd út keppnina,“ segir Sigurður og útskýrir að með því hafi lögreglan passað upp á að aðrir keppendur á brautinni væru ekki fyrir sér. Jók hann við forskot sitt hægt og rólega, en eftir um 130 km á hjólinu kom að fyrsta atvikinu sem hægt væri að flokka sem smá mistök. Sigurður segir að þá hafi hann misst hluta af þeirri næringu sem hann hafi verið með upp úr vasanum á hjólagallanum, samtals um 250 kaloríur sem hann átti að neyta samkvæmt næringarplaninu. „Svo fæ ég líka smá tak í vinstri mjöðmina og þurfti þá að slá aðeins af síðustu 50 km,“ segir Sigurður sem vonaði að það hefði ekki mikil áhrif á hlaupið. Aftur er gott að hafa í huga að þótt hér sé farið að síga á seinni hlutann í keppninni er samt eftir eitt stykki heilt maraþon.

Hafði aldrei áður hlaupið maraþonhlaup

Sigurður segir að honum hafi liðið nokkuð vel þegar kom að skiptingunni yfir í hlaupið og að hann hafi þar farið í sokka og skó og fengið sér næringu áður en lagt var af stað. Óvissa var hins vegar framundan með hvernig honum tækist til með hlaupið, enda hafði hann aldrei áður klárað heilan járnkarl, né maraþonhlaup.

„Ég taldi að fyrstu 20 km yrðu góðir en eftir það gæti orðið óvissuástand,“ segir Sigurður og bætir við að svo hafi komið í ljós að sig vantaði kílómetra í lappirnar. „Lærin gefa sig og höggin sem þú færð eru of mikið og lærin verða ósamvinnuþýð.“ Segist hann hafa þurft að slá aðeins af til að geta klárað keppnina.

Á hjólinu eru farnir 180 km í heilum járnkarli.
Á hjólinu eru farnir 180 km í heilum járnkarli.

Fjölskylda Sigurðar var við brautina og hvatti hann áfram og upplýsti hann um hversu langt væri í næstu keppendur. Segir hann að á þeim tíma hafi hann áttað sig á að þrátt fyrir lærin væri hann líklegur til að vinna. Hann áttaði sig hins vegar á að Íslandsmetið væri farið út um gluggann, en með því að hægja örlítið á hraðanum gæti hann komið í veg fyrir að sprengja sig alveg og þar með vinna keppnina, en þarna var hann með um 10 mínútna forskot á næsta keppanda. Endaði hann svo með að vinna tæplega 7 mínútum á undan silfurverðlaunahafanum.

„Slökun“ fram að áramótum

„Ég vissi að tíminn sem ég stefndi á ætti að duga í topp fimm, en það er alltaf óvissa með það hvernig dag hinir keppendurnir eiga,“ segir Sigurður spurður hvort hann hafi ætlað sér að vinna keppnina frá upphafi. Hann segist alveg virkilega sáttur með árangurinn þó að Íslandsmetið muni þurfa að bíða og að núna muni hann taka alla jákvæðu punktana frá keppninni og setja það í reynslubankann fyrir næstu keppni.

„En ég mun taka slökun fram að áramótum. Eða eins mikla og maður getur,“ segir Sigurður hlægjandi þegar blaðamaður spyr hann um næstu skref. Bætir hann við að í því felist reyndar að halda sér við, en slíkt getur hæglega verið talsvert fleiri æfingar en meðalmaðurinn gerir, enda segir Sigurður að í undirbúningi sínum hafi hann æft um 13-15 klst á viku.

Reynir aftur við metið í Hamborg

Næsta mót verður í júní í Hamborg í Þýskalandi þar sem Sigurður segir að sé „næsta tækifæri til að taka þetta blessaða hraðamet,“ en þar á eftir verður heimsmeistaramótið í Kona á Havaí. Upphaflega skráði Sigurður sig til leiks í Barcelona í nóvember í fyrra og því er hann búinn með um eitt ár af þessu ferðalagi sínu sem hann setti upp, en áfangastaðurinn er enn þá eitt ár í burtu. „Þetta var tveggja ára verkefni sem maður setti upp,“ segir hann.

Mun æfa í miklum hita fyrir Havaí

Úti á Spáni var hitinn um 25-26°C og segir Sigurður að það hafi verið nokkrum gráðum heitara en hann hefði helst kosið sjálfur. Til viðbótar hafi verið heiðskýrt og aldrei pása frá sólinni. „Það tekur rosalega úr manni og eykur vökvatapið. Þetta var eins og að vera í bakaraofni,“ segir hann léttur í bragði.

Á Havaí má í október oft búast við hitastigi sem er vel yfir 30°C og jafnvel upp undir 40°C, auk mun meiri raka Spurður hvernig hann ætli að æfa sig fyrir þær aðstæður segir Sigurður að hann hafi þegar rætt talsvert við núverandi Íslandsmethafa, Geir Ómarsson, sem hafi skoðað flestar hliðar hitaaðlögunar. „En það verður partur af þessu,“ segir Sigurður og bætir við að æfingar næsta ár muni fela í sér að æfa við hátt hitastig og fara í gufu eftir æfingar til að missa enn meiri vökva. Þá muni hann reyna að halda uppi kjarnhita í æfingum til að reyna að endurspegla aðstæður á Havaí. Til viðbótar áformar hann að mæta út þremur vikum fyrir keppni til að undirbúa sig sem best í keppnisaðstæðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert