Nokkrir skólastjórar haft samband

Nokkrir skólar vilja innleiða viðbragðsáætlanir þegar í stað.
Nokkrir skólar vilja innleiða viðbragðsáætlanir þegar í stað. mbl.is/Hari

Samband íslenskra framhaldsskólanema hefur fengið fund í næstu viku með Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, vegna ofbeldismála innan veggja framhaldsskóla.

Nokkrir skólastjórar hafa þegar haft samband við ráðuneytið í von um að taka á málunum og setja af stað viðbragðsáætlanir.

Sendu áskorun eftir ofbeldismál í FSu

„Við sendum áskorun á menntamálaráðherra ágúst að setja af stað viðbragðsáætlun í öllum skólum landsins vegna ofbeldis innan veggja skóla, sem á að tryggja öryggi nemenda,“ segir Katrín S. Kristjana Hjartardóttir, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra framhaldsskólanema. 

Sambandið óskaði fyrst eftir fundi þegar ofbeldismál kom upp í Fjölbrautarskóla Suðurlands í ágúst og hefur ráðherrann loks fallist á beiðnina.

Katrín S. Kristjana Hjartardóttir
Katrín S. Kristjana Hjartardóttir Ljósmynd/ SÍF

Nokkrir skólar vilja innleiða áætlun strax

„Reynslan er þannig að stundum þurfa hlutirnir að gerast til þess að kerfið fari af stað,“ segir Katrín og bendir á að eitt atvik sé of mikið. 

„Á sama tíma erum við að vinna fyrir alla nemendur og verðum að gæta þess að enginn nemandi, alveg sama hvað hann gerir af sér, missi rétt til menntunar. Það þarf að setja af viðbragðsáætlun og við höfum reynslu úr heimsfaraldri. Við höfum nýtt okkur tæknina til dæmis með fjarkennslu,“ segir Katrín.

Nokkrir skólastjórar hafi haft samband og vilja innleiða viðbragðsáætlun strax, að sögn Katrínar. „Annars sjáum við ekkert því til fyrirstöðu að allir skólar taki hana upp, ef þetta kemur frá ráðuneytinu. Það verður ekkert um nemendur án nemenda og SÍF var einmitt stofnað til þess að halda því á lofti,“ segir Katrín að lokum. 

mbl.is