Segir upplýsingar um lyfjabirgðir rangar

Hálfdan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Parlogis.
Hálfdan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Parlogis. Ljósmynd/Aðsend

Hálfdan Gunnarsson, framkvæmdastjóri lyfjadreifingarfyrirtækisins Parlogis, segir það vera rangt að íslenskir lyfjaheildsalar séu á hverjum tíma með innan við mánaðarbirgðir af almennum lyfjum líkt og haldið er fram í nýlegri skýrslu um nauðsynlegar birgðir til að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættutímum.

Segir hann það vera rangar upplýsingar, að minnsta kosti hvað Parlogis varðar, og ekki í samræmi við upplýsingagjöf fyrirtækisins til Lyfjastofnunar við vinnslu skýrslunnar.

„Þetta eru rangar upplýsingar í tengslum við umræðuna um lyfjaskort. Við erum að jafnaði með birgðir sem duga í tvo og hálfan mánuð, en í skýrslunni kom fram líkt og birgðahald almennra heildsala væri tæpur mánuður,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Ekki óvenjuleg birgðastaða

Aðspurður segir hann að ekki sé óvenjulegt að birgðastaða á almennum lyfjum sé tveir og hálfur mánuður.

„Ég myndi telja það vera hæfilegar öryggisbirgðir miðað við það að Ísland sé eyja á miðju Atlantshafi. Þær öryggisbirgðir duga í langflestum tilfellum ef það kemur hökt í aðfangakeðjuna. En ef það verður alþjóðlegur lyfjaskortur þá lendum við í sömu stöðu og önnur lönd.“

Í skýrslunni er lagt til að framangreint vandamál sé hægt sé að leysa með miðlægri birgðaskráningu lyfja sem og þátttöku í samnorrænum útboðum. Hálfdan segir að þau atriði komi ekki í veg fyrir alþjóðlegan birgðaskort sem sé ekki séríslenskt fyrirbrigði. Skilvirkasta leiðin til að takmarka neikvæð áhrif lyfjaskorts er að fjölga skráðum lyfjum á íslenska markaðnum.  

„Sem dæmi þá er hér á íslandi um 3.300 skráð lyf, en á norðurlöndunum eru þau 9 til 14 þúsund. Á norðurlöndunum eru mun fleiri staðkvæmdarlyf skráð sem hægt er að grípa til ef upp kemur skortur.

Segjum sem svo að það séu þrjú lyf skráð með samskonar virkni og það kemur upp skortur á einu. Í þeim tilfellum geta sjúklingarnir gripið til hinna tveggja. En á Íslandi er kannski bara eitt lyf skráð sem skapar augljóslega vandamál ef upp kemur vöntun.“

Stjórnvöld þurfa að breyta leikreglum

Hálfdan segir að ef lyfjaframboð á Íslandi eigi að aukast þá þurfa stjórnvöld að taka af skarið.

„Mér finnst að umræðan lyfjaskort ætti að snúast meira um ástæður þess að hér séu jafn fá lyf skráð og raun ber vitni.

Ef lyfjaframboð á Íslandi á að aukast þurfa stjórnvöld að breyta leikreglum á þann hátt að þær taki mið af sérstöðu Íslands sem örmarkaðar í stað þess að vera sambærilegar eða strangari en gildir á margfalt stærri markaðssvæðum. Reglurnar valda því iðulega að erlendir lyfjaframleiðendur meti hag sínum betur borgið með því að sleppa skráningu á sínum lyfjum hérlendis,“ segir Hálfdan í lokin.

mbl.is