Þurfa að segja nei við nýja stórnotendur

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Næstu virkjanir Landsvirkjunar á Íslandi verða teknar í gagnið árin 2026 og 2027. Það eru virkjanir sem eru á lokastigi undirbúnings í dag. 

Þetta kom fram í erindi Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, á haustfundi félagsins í morgun. Yfirskrift fundarins var Forgangsröðun – nokkuð sem Hörður fjallaði sérstaklega um.

Ekki bara þeir sem bjóða best 

Sagði Hörður að komið væri til þess að eftirspurn eftir íslenskri grænni orku væri svo mikil að mikilvægt væri að forgangsraða. „Það er alveg ljóst, þó að þetta sé markaðsumhverfi, að við getum ekki forgangsraðað bara eftir því að selja á sem hæstu verði,“ sagði Hörður. 

Þættir sem taka þarf tillit til við forgangsröðun frekari orkusölu eru helst loftslagsskuldbindingar kaupenda, áhætta, greiðslugeta og stuðningur samfélagsins.

Iðnaði, sem sækir í íslenska orku, er skipt í þrjá forgangsflokka. Eftirspurnarhliðin er þá flokkuð í fimm flokka; 

  • Almenn notkun og innlend orkuskipti
  • Stafræn vegferð, nýsköpun og fjölnýting
  • Framþróun núverandi stórnotenda
  • Nýir stórnotendur í málmiðnaði og hrávöru 
  • Útflutningur orku með rafeldsneyti eða sæstreng

Almenn notkun og innlend orkuskipti er í hæsta forgangi hjá Landsvirkjun.

Rafmyntagröftur mætir algjörum afgangi

Í öðrum forgangsflokki eru stafræn vegferð, nýsköpun og fjölnýting. Undir það falla til dæmis grænir iðngarðar en áform um slíka garða liggja fyrir bæði í Norðurþingi og Fjarðabyggð. Undir þennan flokk falla einnig gagnaver. Þó tók Hörður sérstaklega fram að horft væri til gagnavera sem stunda reiknifreka vinnslu, ekki rafmyntagröft. „Það er mikilvægt að það sé skýrt að rafmyntagröftur mætir algjörum afgangi hjá okkur.“

Hörður segir ljós að innan annars flokks muni þurfa að forgangsraða miðað við þá eftirspurn sem nú er. Það leiði af sér að hafna þurfi ýmsum verkefnum sem falla í þriðja flokk. 

Þó er framþróun hjá núverandi stórnotendum flokkuð í þriðja flokk forgangs en Hörður sagði mikinn vilja til að sinna þeim. 

Þeir, sem Landsvirkjun kemur til með að þurfa að hafna um orku og falla ekki í þrjá fyrstu forgangsflokkana, eru nýir stórnotendur í málmiðnaði og hrávöru og útflutningi orku með rafeldsneyti eða sæstreng.

„Það eru verkefni sem við getum, því miður, ekki sinnt núna og teljum langhreinlegast að senda mjög skýr skilaboð um það.“

mbl.is