Ákærður fyrir manndrápstilraun við leikskólann

Frá vettvangi við Miðvang 41.
Frá vettvangi við Miðvang 41. mbl.is/Tómas Arnar

Karlmaður á sjötugsaldri hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps vegna skotárásar á Miðvangi í Hafnarfirði í lok júní. Ákæran var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í dag en þinghaldið var lokað. Rúv greinir frá.

Fór saksóknari fram á að maðurinn verði dæmdur til refsingar en til vara að honum verði gert að sæta öryggisvistun, að því er fram kemur í frétt Ríkisútvarpsins.

Brotaþolar í málinu eru tveir og hafa þeir krafist þess að maðurinn verði dæmdur til að greiða þeim samtals átta milljónir króna í miskabætur.

Mikil mildi var að ekki fór verr þegar skotið var á kyrrstæðar bifreiðar við leikskóla í Hafnarfirði í júní á þessu ári. Faðir og sex ára sonur voru í annarri bifreiðinni en urðu ekki fyrir skoti þótt litlu mátti muna.

Mikill viðbúnaður lögreglu var á vettvangi og var karlmaðurinn sem grunaður er um árásina handtekinn á staðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert