Engan óraði fyrir skólpmenguninni

Grunur kom fyrst upp um slæm loftgæði fyrir um ári. …
Grunur kom fyrst upp um slæm loftgæði fyrir um ári. Myndin er úr safni. mbl.is/Hákon

Fundað var með starfsfólki og foreldrum barna í leikskólanum Grandaborg í Vesturbæ Reykjavíkur á mánudaginn og upplýst og stöðu mála vegna skólpmengunar í jarðvegi við leikskólann. 

Starfsfólk hafði veikst og einkenni þeirra líktust veikindum sem tengjast rakaskemmdum. Þá er ekki hægt að útiloka að börn hafi veikst vegna mengunarinnar en Helena Jónsdóttir leikskólastjóri segir oft erfitt að greina á milli veikinda sem tengjast skemmdunum og öðrum veikindum. 

Börnin heima þessa vikuna

Fram kom á upplýsingafundinum að farið verður í allsherjarúttekt á húsinu og það gert upp með tilliti til nútíma krafna. 

Talið er skólplögn í skriðkjall­ara und­ir nýrra húsi leik­skól­ans hafi farið í sund­ur og hef­ur meng­un greinst í jarðvegi. 

Helena segir að börnin í leikskólanum séu heima sem stendur og líklegt sé að þau fái úthlutuð pláss ýmist í ævintýraborginni við Nauthólsveg, í Kringlunni eða í Ævintýraborginni við Eggertsgötu á morgun eða föstudag. Starfsmenn flytjast einnig á nýjar starfstöðvar.

Heil­brigðis­eft­ir­lit og skóla- og frí­stunda­sviðs Reykja­vík­ur­borg­ar mat það nauðsyn­legt að loka leik­skól­an­um og flytja starf­sem­ina.

Ítarleg úttekt verkfræðistofunnar EFLU á húsnæði skólans er ekki hafin og segir Helena því lítið hægt að segja til um umfang framkvæmda sem framundan eru eða hversu útbreidd mengunin er.

Vissu ekki hverju ætti að leita að 

Fyrstu vísbendingar um slæm loftgæði komu fram fyrir um ári síðan. Helena segir, spurð hvers vegna svo langan tíma tók að komast að vandamálinu, að ekki hafi almennilega verið vitað hvernig lagnir lægju og af lagnarkjallaranum. 

„Það hafa verið framkvæmdir á húsinu og við bentum á að það væri eitthvað í gangi en enginn gerði sér grein fyrir hvað það var.“

Byggt á ruslahaug

Fyrst hafi verið vond lykt í húsinu um það leyti sem grunur kom upp um að eitthvað væri að loftgæðum. Þá hafi verið gerðar lagfæringar og lyktin batnaði. „Á meðan hefur vandamálið bara stækkað,“ segir Helena. „Þetta er flókið þegar maður veit ekki að hverju maður er að leita,“ bætir hún við. Enn fremur segir Helena erfitt sé að segja til um hvenær lagningar hafi gefið sig, enda sé lagnakjallarinn ekki í notkun. 

Athygli hefur vakið að skólplögnin sem talin er hafa gefið sig er undir nýlegu húsnæði, frá árinu 2008. Helena tekur undir að það sé óhugarlegt að lagnir hafi gefið sig í svo nýlegu húsnæði en bendir á að undirlagið á svæðinu sé ekki mjög öruggt. 

„Þetta er byggt á ruslahaug og þeir sem að þekkja söguna vita það alveg,“ segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina