Farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald

Mennirnir eru grunaðir um að hafa staðið að skipulagningu hryðjuverka …
Mennirnir eru grunaðir um að hafa staðið að skipulagningu hryðjuverka hér á landi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir mönnunum tveimur sem grunaðir eru um að hafa staðið að skipulagningu hryðjuverka hér á landi. Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, í samtali við mbl.is.

Mennirnir hafa þegar setið í gæsluvarðhaldi í tvær vikur, en gæsluvarðhaldsúrskurður yfir þeim rennur út á morgun. Ólafur vildi ekki gefa upp hvað yrði farið fram á langt varðhald. 

„Kröfugerðin er í smíðum. Beiðnin verður lögð fram fram og fjallað um hana á morgun.“

Þá vildi hann ekki segja til um hvort þess yrði krafist að mennirnir sættu áfram einangrun, en þeir hafa verið í einangrun frá því þeir voru handteknir þann 21. september síðastliðinn.

„Ef beðið er um ákveðnar takmarkanir meðan á gæsluvarðhaldi stendur þá þarf það að koma fram í beiðninni til dómsins.“

Lögmenn mannanna hafa gagnrýnt hve lengi mennirnir hafa verið í einangrun, en í samtali við mbl.is á mánudag sagði Ólafur að talin væri þörf á einangrun vegna rannsóknarhagsmuna. Ekki væri krafist einangrunar nema talin væri þörf á því að beita henni. Lögreglan gæti svo dregið úr takmörkunum eftir þörfum.

mbl.is