Segja stjórnvöld fallin á tíma og stofna aðgerðarhóp

Nem­end­um í Mennta­skól­an­um í Hamra­hlíð er nóg boðið vegna aðgerðal­eys­is …
Nem­end­um í Mennta­skól­an­um í Hamra­hlíð er nóg boðið vegna aðgerðal­eys­is skóla­stjórn­enda í nokkr­um mál­um sem tengj­ast kyn­ferðisof­beldi á milli nem­enda. mbl.is/Þorkell

„Það er mat SÍF að menntamálaráðherra og ráðuneytið séu fallin á tíma,“ segir í tilkynningu frá stjórn Sambands íslenskra framhaldsskólanema sem sambandið sendi frá sér vegna aðgerðarleysis stjórnvalda gagnvart kynferðisofbeldi í framhaldsskólum.

Segir í tilkynningunni að SÍF hafi fylgst náið með öllum þeim atvikum sem hafa komið upp á landsvísu síðustu mánuði er varða kynferðislegt ofbeldi í framhaldsskólum landsins. Vísa þau þar til málanna sem komu upp í Menntaskólanum við Hamrahlíð og í Fjölbrautaskólanum á Suðurlandi. Í báðum skólum voru skólastjórnendur sakaðir um aðgerðarleysi í málum tengdum kynferðisofbeldi á milli nemenda.

Harma aðgerðarleysi

Stjórn SÍF tekur fram í tilkynningunni að þau harmi aðgerðaleysi stjórnvalda í kjölfar málsins í FSu og benda á að þau hafi sent Ásmundi Einari Daðasyni, mennta og barnamálaráðherra, áskorun um að klára viðbragðsáætlun þann 29. ágúst.

Hefur SÍF því ákveðið að stofna sinn eigin aðgerðarhóp undir handleiðslu Sólborgar Guðbrandsdóttur. Að því sem fram kemur í tilkynningunni er markmiðið með aðgerðarhópnum að setja saman aðgerðaáætlun sem á að afhenda skólastjórum um mánaðamót október og nóvember.

Hópurinn samanstendur af Sólborgu og framkvæmdastjórn SÍF, níu kynjafræðikennurum, ráðgjafa frá Stígamótum og fleiri aðilum.

SÍF fundaði þá í dag með skólastjórnendum Menntaskólans við Hamrahlíð og ætlar skólinn sér að verða fyrsti skóli landsins til að taka á móti aðgerðaráætluninni og innleiða hana.

Vilja vinna með öllum sem hafa áhuga

Mennta- og barnamálaráðuneytið tilkynnti í dag að það væri búið að boða skólastjórnendur framhaldsskóla á fund þar sem kynnt verður fyrirmynd að viðbragðsáætlun sem skólarnir geta nýtt.

SÍF óskar eftir að vinna ráðuneytisins verði lögð til með áætlun sambandsins. 

„Viðbragðsáætlunin er öllum skólum til hagsbóta og vonast SÍF eftir að verkefnið verði unnið saman með öllum þeim sem hafa áhuga til,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert