SÍ fundaði um mál Bjarna í dag: „Engin niðurstaða“

Lára Sóley Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Lára Sóley Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands fundaði í dag en þar var meðal annars rætt um mál Bjarna Frímanns Bjarnasonar tónlistarmanns.

Þetta staðfestir Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, í samtali við mbl.is en hún tekur þó fram að málið hafi bara verið rætt almennt og að engin niðurstaða hafi verið slegin varðandi málið.

„Þetta var fundur sem er haldinn samkvæmt starfsáætlun en það er engin niðurstaða sem kom á fundinum,“ segir Lára.

Nokkrir fagaðilar koma til greina

Eins og áður hefur verið greint frá sagði Bjarni í færslu á Facebook-síðu sinni að Árni Heimir Ingólfsson, fyrrverandi tónlistarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, hefði brotið á sér kynferðislega þegar Bjarni var enn í Listaháskóla Íslands. Bjarni var þá 17 ára en Árni 35 ára.

Ítrekar Lára að stjórn og framkvæmdastjórn SÍ hafi ákveðið að fela óháðum fagaðila að skoða mál Bjarna og Árna. Þá segir hún að ýmsir fagaðilar hafi verið skoðaðir á fundinum og rætt hver væri málinu best vaxinn.

„Það er auðvitað einhugur allra að þetta gangi sem best og hraðast fyrir sig.“

Þá segir hún það ekki vera ákveðið hvaða fagaðili muni taka málið að sér en að nokkrir komi til greina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert