Skólastjórnendur biðja nemendur MH afsökunar

mbl.is/Kristinn Magnússon

Skólastjórnendur í Menntaskólanum við Hamrahlíð segjast harma að núverandi og fyrrverandi nemendur hafa upplifað vanlíðan vegna mála er varða kynferðislegt ofbeldi og kynferðislega áreitni sem hafa komið upp og ekki var tekið á með viðunandi hætti. Stjórnendur biðja nemendur afsökunar í yfirlýsingu sem þeir hafa sent frá sér. 

Yfirlýsingin kemur í kjölfar mikillar ólgu meðal nemenda í skólanum í vikunni. Greint hefur frá því að nemendum hafi verið nóg boðið vegna aðgerðal­eys­is skóla­stjórn­enda í nokkr­um mál­um sem tengj­ast kyn­ferðisof­beldi á milli nem­enda. 

„Menntaskólinn við Hamrahlíð lítur kynferðislega áreitni og kynferðislegt ofbeldi mjög alvarlegum augum. Stjórnendur, starfsfólk MH og allt skólasamfélagið stendur með þolendum ofbeldis og ef upp koma mál sem tengjast ofbeldi, af hvaða tagi sem er, viljum við taka á þeim. Þessi mál eru viðkvæm, við erum að læra og við viljum gera betur,“ segir í yfirlýsingu sem birtist síðdegis á heimasíðu MH.

„Þá hörmum við að núverandi og fyrrverandi nemendur hafa upplifað vanlíðan vegna mála er varða kynferðislegt ofbeldi og kynferðislega áreitni sem hafa komið upp og ekki var tekið á með viðunandi hætti. Við biðjumst innilegrar afsökunar á því. Við munum leggjast á eitt við að vinna vel úr þeim málum sem hafa verið tilkynnt til skólans og bregðast við í samræmi við áætlanir. Skólastjórnendur hafa tekið á móti tillögum nemenda um úrbætur og hvernig megi bæta ferlið þegar upp koma mál af ofangreindum toga. Eftir fund í dag með fulltrúum Sambands íslenskra framhaldsskólanema, SÍF, var ákveðið að skólinn yrði einn af samstarfsaðilum þeirra í aðgerðum gegn kynferðislegri áreitni og kynferðislegu ofbeldi. SÍF er langt komið með áætlunina sem unnin er af þeirra sérfræðingum og við erum tilbúin í samstarf,“ segir þar ennfremur.

Að endingu segir í yfirlýsingunni: „Kæru nemendur við viljum jafnframt biðjast afsökunar á fyrstu viðbrögðum okkar á klósettunum á Matgarði. Kveðja Steinn, Helga og Pálmi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert