Telja ekkert tilefni til vaxtahækkana

Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum að vonast til þess að við værum komin á endastöð með vaxtahækkanir,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ, í samtali við mbl.is um 0,25 prósentu hækkun stýrivaxta sem tilkynnt var um í morgun. 

Kristján segir augljóst að þær vaxtahækkanir sem þegar hefur verið gripið til haft áhrif og séu farnar að vinna á móti verðbólgu. „Við töldum hækkanir vera komnar yfir það sem þurfti til við síðustu stýrivaxtahækkun og nú bætist ofan á það. Við í rauninni teljum ekkert tilefni til þessarar hækkunar,“ segir Kristján. 

Kristján segir ASÍ hafa töluverðar áhyggjur af stöðu heimilanna núna. „Maður heyrir það frá ansi mörgum að staðan er orðin mjög þung hjá fólki. Maður veltir því fyrir sér hver það er sem hagnast mest á þessum sífelldu hækkunum. Vaxtarmunur bankanna er að aukast og þeir taka meira til sín – það er tekið úr vasa fólksins. Það er það allra versta í þessari stöðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert