Guðlaugur Þór ökklabrotinn

Guðlaugur Þór Þórðarson ökklabrotnaði á fundahlaupum og bíður nú aðgerðar.
Guðlaugur Þór Þórðarson ökklabrotnaði á fundahlaupum og bíður nú aðgerðar. Ljósmynd/Facebook

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, varð fyrir því óhappi að brjóta á sér ökklann í morgun. Frá þessu greinir hann í færslu á Facebook um málið og spyr um leið hvort táslumyndir séu ekki í tísku.

Lagðist ráðherra inn á Landspítalann þar sem fóturinn var settur í gifs og kveðst nú bíða eftir aðgerð þar sem brotið hafi verið í verra lagi. „Slysið var slysalegt eins og flest slys. Var að hlaupa milli funda, stytti mér leið og skrikaði fótur,“ skrifar Guðlaugur og ber starfsfólki Landspítalans vel söguna þar sem vel hafi verið tekið á móti honum.

Guðlaugur Þór óbrotinn.
Guðlaugur Þór óbrotinn. mbl.is/Sigurður Bogi

„Vil segja frá þessu vegna þess að dagskráin mín mun riðlast og ég vil biðja ykkur velvirðingar á því. Einnig vil ég biðja ykkur um að fara varlega, það er alltaf mikilvægt. Trúið mér það er ekki gott að lenda í svona hlutum,“ skrifar Guðlaugur að endingu og lætur fylgja með að hundurinn Máni hafi nú áhyggjur af morgungöngutúrunum en því verði bjargað.mbl.is