Lögreglan vísar frá kæru Sturlu

Fimm aspir voru felldar.
Fimm aspir voru felldar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á Suðurlandi hefur vísað frá kæru Sturlu Jónssonar er varðar eignaspjöll á lóð hans og eiginkonu hans í Hveragerði vegna fimm aspa sem sagaðar voru niður af starfsmanni Landsnets.

Aspirnar voru taldar ógna rafmagnslínum og óskaði Landsnet eftir leyfi hjá Orkustofnun fyrir framkvæmdinni. Sturla telur þó aðgerðin hafa verið ólögmæt þar sem ekki fékkst dómsúrskurður. Kærði hann því starfsmanninn sem sagaði niður aspirnar.

„Orkustofnun heimilaði þeim að fara inn á landið mitt og taka trén en þau gerðu ein smávægileg mistök. Þau fóru ekki og óskuðu eftir úrskurði hjá dómara til þess að rjúfa friðhelgina á eignarréttinum,“ segir Sturla í samtali við mbl.is.

„Lögregla fer aldrei inn á heimili hjá fólki nema að það sé búið að dæma um að hún megi það og það gildir alveg það sama um þetta,“ bætir hann við.

Minniháttar skemmdarverk

Í svari lögreglustjórans á Suðurlandi við kæru Sturlu kemur fram að embættið telji að um einkaréttarlegan ágreining sé að ræða sem verði ekki leyst úr í sakamáli. Þá kemur fram í svarinu að eignaspjöllin séu minniháttar skemmdarverk.

Hér má sjá eina öspina.
Hér má sjá eina öspina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sturla segir að eignaspjöllin varði brot á eignaréttinum og þar með brot á stjórnarskrárvörðum rétti sínum.  

Þá segir hann lögreglu ekki hafa heimild til að úrskurða að um minniháttarskemmdarverk hafi verið að ræða. 

„Þetta var allt lagt niður árið 1992 með lögum sem heita lög um framkvæmdavald ríkis í héraði. Það sem ég er að velta fyrir mér er hvar í ósköpunum þeir gátu tekið sér þetta vald að dæma hvort þetta er meiriháttar eða minniháttar.“

Ekki fengið gögn afhent

Sturla var stadd­ur í Reykja­vík þegar asp­irn­ar voru felld­ar og fékk sím­tal frá manni sem sá verknaðinn eiga sér stað. Sturla hringdi í lög­reglu sem kom á staðinn og tók skýrslu og mynd­ir af trján­um.

Hann hefur nú farið fram á að fá skýrslu og myndavélargögn frá vettvangi úr búkmyndavélum lögreglu afhent. Lögreglan hefur ekki orðið við þeirri beiðni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert