Nemendur MH ganga út þrátt fyrir afsökunarbeiðni

Nemendur MH halda sínu striki og ganga út úr tímum klukkan 11 í dag og safnast saman fyrir framan aðalinngang skólans til að sýna nemendum sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi stuðning, ásamt því að reyna að knýja fram breytingar á kerfum sem vinna gegn þolendum, meðal annars kerfum og ferlum innan menntakerfisins. 

Nemendur MH ganga út úr tímum í mótmælaskyni.
Nemendur MH ganga út úr tímum í mótmælaskyni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Yfirlýsing sem skólastjórnendur MH sendu frá sér í gær, þar sem nemendur voru beðnir afsökunar og það harmað að nemendur hafi upplifað vanlíðan vegna mála er varða kynferðislegt ofbeldi og áreitni, sem ekki hafi verið tekið á með viðunandi hætti, hefur engin áhrif á mótmælin, að sögn Urðar Bartels, nemanda við MH.

„Nei, það var ekkert sem breytti skoðunum okkar um mótmælin,“ segir Urður í samtali við mbl.is, en hún og fleiri nemendur munu flytja ræður á mótmælunum.

Greint hefur verið frá því að nemendum skólans sé nóg boðið vegna aðgerðaleysis skólastjórnenda í nokkrum málum sem tengjast kynferðisofbeldi sem komið hafa upp innan skólans. Nemendur eru meðal annars ósáttir við að þolendur þurfi að mæta gerendum sínum á göngum skólans.

Blöð hafa verið hengd bæði á göngunum og á salernum skólans og skrifað á spegla með þar sem skólastjórnendur eru gagnrýndir fyrir aðgerðaleysið og þess krafist að breytingar verði gerðar á verklagi.

Nemendur MH hafa fengið nóg af aðgerðaleysi skólayfirvalda.
Nemendur MH hafa fengið nóg af aðgerðaleysi skólayfirvalda. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert