Prófarkalesari Ísorku var grín

Sigurður Ástgeirsson framkvæmdastjóri var gerður útlægur frá skrifum í eigin …
Sigurður Ástgeirsson framkvæmdastjóri var gerður útlægur frá skrifum í eigin fyrirtæki og bannað að rita nokkuð á Facebook í nafni Ísorku enda með snert af skrifblindu. mbl.is/Árni Sæberg

„Sagan er bara mannleg,“ segir Sigurður Ástgeirsson, framkvæmdastjóri rafhleðslustöðvafyrirtækisins Ísorku, sem í gær sendi frá sér tilkynningu til viðskiptavina sinna um að fyrirtækið hefði ráðið til sín prófarkalesara vegna fjölda stafsetningar- og málfarsvillna í kynningarefni sem áður hafði farið til 9.600 viðskiptavina.

„Prófarkalesari mætir til vinnu í fyrramálið kl. 09,“ sagði í tilkynningunni og fylgdi þetta: „Ísorka biðst velvirðingar á stafsetningar- og innsláttarvillum sem hafa átt sér stað í gegnum árin og vonar að þessi ráðning verði til þess að núverandi og framtíðarviðskiptavinir geti andað léttar. Fréttabréf og annað markaðsefni Ísorku verður því framvegis svo rétt að sjálf Árnastofnun mun líklega veita Ísorku verðlaun.“

„Firsta Olís stöðin komin í gangið,“ tilkynnir Ísorka viðskiptavinum sem …
„Firsta Olís stöðin komin í gangið,“ tilkynnir Ísorka viðskiptavinum sem brugðust sumir ókvæða við. Voru þeir mildaðir með ráðningu prófarkalesara sem reyndar er tóm tjara en úrbætur þó væntanlegar eftir öðrum leiðum. Skjáskot/Aðsent

Játar framkvæmdastjórinn að frásagnir af ráðningu prófarkalesarans hafi reyndar verið grín en ráðstafanir verði þó gerðar. Meira um það hér á eftir.

„Þá blasti fegurðin við“

„Við vorum að undirbúa fjölpóst til viðskiptavina sem var hent niður í flýti og svo átti eftir að renna yfir hann fyrir sendingu. Okkur lá eitthvað á að koma þessu út og Hugi [Halldórsson markaðsstjóri] var á leið til útlanda með ungabarn á öxlinni og var að gera og græja heima hjá sér,“ segir Sigurður frá.

Saga prófarkalesarans í heild sinni.
Saga prófarkalesarans í heild sinni. Skjáskot/Aðsent

Hafi málum lyktað með því að röng útgáfa póstsins fór út til tæplega 10.000 viðskiptavina í flýtinum. „Við héldum að við hefðum unnið gott verk þar til þetta datt inn í innhólfið hjá okkur. Þá blasti fegurðin við,“ segir framkvæmdastjórinn og hlær.

Hafi viðbrögðin ekki látið á sér standa. „Við fengum símtöl, við fengum póst og þetta fór fyrir brjóstið á mjög mörgum. Eðlilega, okkur er annt um tunguna okkar. Svo við fórum bara að hugsa hvað við ættum að gera og besta niðurstaðan var bara að gera grín að sjálfum okkur, sem var þessi tilkynning um prófarkalesarann. Við erum bara fólk sem vinnum hérna og leyfum okkur að gera mistök,“ segir Sigurður.

Vitnar hann því næst í þekkta speki Jóns Gnarrs, leikara, rithöfundar, fyrrverandi borgarstjóra og fleira, sem benti á að sá sem gerði nógu mikið grín að sjálfum sér hindraði með því að aðrir gætu gert að honum grín.

Hillir undir lausnina

Sjálfur kveðst Sigurður hafa verið settur í skrifbann í vinnunni. „Ég hef verið að sjá um markaðsmál og samfélagsmiðla en ég er með snert af skrifblindu, ég sé til dæmis stundum ekki alveg hvar á að vera ypsílon. Starfsmenn hér bönnuðu mér að birta efni á Facebook í nafni Ísorku, og ég er framkvæmdastjóri og eigandi! Undantekningarlaust voru þar málfræðivillur,“ segir Sigurður af ritstörfum sínum.

Nú horfi hins vegar allt til betri vegar í réttritunarmálum Ísorku því þótt ráðning prófarkalesarans hafi verið glens af hálfu starfsmanna mun annálaður íslenskumaður og málfarshaukur innan fyrirtækisins hér eftir annast lokayfirferð markaðsefnis. „Við getum bara ekki verið með prófarkalesara í fullu starfi,“ segir Sigurður og hlær og blaðamaður fellst á að sá skæri sig líklega rækilega úr innan um alla rafvirkjana sem kynntir eru á heimasíðu Ísorku.

mbl.is