Ríkið opnar mannauðstorg

Með bættu aðgengi að upplýsingum á mannauðstorgi og aukinni áherslu …
Með bættu aðgengi að upplýsingum á mannauðstorgi og aukinni áherslu á stafrænar lausnir er gert ráð fyrir að mörg erindi verði hægt að leysa í formi sjálfsafgreiðslu. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Mannauðstorg ríkisins, ný upplýsingasíða um alla þætti mannauðsmála hjá ríkinu, var opnuð í dag.

Fjármálaráðuneytið greinir frá þessu. Þar kemur fram, að torginu sé ætlað að bæta þjónustu við notendur mannauðs- og launaupplýsinga hjá ríkinu en einnig að veita greinargóðar almennar upplýsingar. Fjallað sé um alla þætti mannauðsmála, svo sem ráðningar, starfsþróun, heilsu, öryggi, vinnuumhverfi, samskipti, endurgjöf, starfsþróun og starfslok.

Enn fremur sé á síðunni að finna upplýsingar um túlkun fjármála- og efnahagsráðuneytisins á ákvæðum kjarasamninga, leiðbeiningar og sniðmát.

Þá segir, að fjármála- og efnahagsráðuneytið og Fjársýsla ríkisins hafi unnið að gerð síðunnar, en samhliða útgáfu Mannauðstorgsins flytjist ráðgjöf vegna mannauðsmála sem áður var á hendi kjara- og mannauðssýslu ríkisins til mannauðs- og launasviðs Fjársýslu ríkisins.

„Með bættu aðgengi að upplýsingum á mannauðstorgi og aukinni áherslu á stafrænar lausnir er gert ráð fyrir að mörg erindi verði hægt að leysa í formi sjálfsafgreiðslu,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert