Segja sáttavilja Halldórs ekki einlægan

Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, og Halldór Kristmannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá …
Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, og Halldór Kristmannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá félaginu. mbl.is/samsett mynd

Sáttavilji Halldórs Kristmannssonar í málaferlum við fyrrum vinnuveitanda sinn Alvogen, var aldrei einlægur og sést það m.a. á því að hann hefur rekið málið í fjölmiðlum. Þetta kemur fram í athugasemd Alvogen Inc. við viðtal sem birtist við Halldór á mbl.is í gærkvöldi.

Alvogen segir viðtalið yfirfullt af rangfærslum og heift og telur félagið Halldór vilja koma höggi á sinn gamla vinnuveitanda í fjárhagslegum tilgangi.

Ekki sé þó ástæða til að eltast við það enda sé stutt í að málið fái efnislega meðferð fyrir dómstólum. 

Fjöl­miðlar hafa fjallað nokkuð um viðsjár milli Halldórs og Ró­berts Wessmans, stjórn­ar­for­manns syst­ur­fyr­ir­tækj­anna, frá því snemma árs í fyrra.

„Tilhæfulausar ásakanir“

„Alvogen Inc. stendur nú í málaferlum við Halldór Kristmannsson, fyrrverandi starfsmann félagsins, vegna trúnaðarbrota hans gagnvart félaginu. Með því vill fyrirtækið fá staðfest fyrir dómi að því hafi verið heimilt að rifta ráðningarsamningi við hann sökum trúnaðarbrots. 

Halldór fór fram með tilhæfulausar ásakanir á hendur Alvogen og stofnanda þess og krafðist um leið ótilgreindrar fjárhæðar sér til handa í þeirri atburðarrás sem hann setti af stað meðal annars í fjölmiðlum,“ segir í athugasemdinni sem barst mbl.is fyrr í dag.

Afgerandi niðurstaða

Fram kemur í athugasemd Alvogens að stjórn félagsins hafi ráðið alþjóðlegu lögfræðiskrifstofuna White & Chase LLP til að fara ítarlega yfir kvartanir Halldórs. Stofan hafi ekki starfað fyrir Róbert Wessman. Þá hafi lögfræðistofan Lex verið ráðgefandi varðandi það sem snúi að íslenskum lögum og vinnulöggjöf.

„Í athugun White&CaseLLP á kvörtunum starfsmannsins fólst meðal annars að ýna fjölda gagna í málinu og taka skýrslur af tugum fyrrverandi og núverandi starfsmanna Alvogen. Öllum vitnum var heitið fullum trúnaði til þess að geta komist til botns í meintum ásökunum.  Af þeim sökum hefur eingöngu stjórn félagsins fengið afhenta skýrsluna. 

Niðurstaðan var afgerandi og hefur Alvogen upplýst fjölmiðla, þar á meðal mbl.is, um niðurstöðuna,“ segir í athugasemdinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert