Tekinn með töluvert magn kókaíns innvortis

Maðurinn var tekinn í Leifsstöð við komuna frá Þýskalandi.
Maðurinn var tekinn í Leifsstöð við komuna frá Þýskalandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt fimmtugan karlmann í fimm mánaða fangelsi fyrir innflutning á um 264 grömmum af kókaíni.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum ákærði manninn í september fyrir að hafa flutt inn kókaínið, sem var ætlað til söludreifingar hér á landi, með flugi frá Munchen í Þýskalandi í 14 pakkningum sem hann hafði faldar innvortis. Maðurinn var svo stöðvaður af tollvörðum í Leifsstöð. 

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að maðurinn hafi játað brot sín fyrir dómi skýlaust. Þá er tekið fram að maðurinn hafi ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo kunnugt sé.

„Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að hann hafi verið eigandi nefndra fíkniefna eða tekið þátt í skipulagningu á kaupum og innflutningi þeirra til Íslands með öðrum hætti en þeim að samþykkja að flytja efnin til landsins gegn greiðslu. Verður litið til þessara atriða við ákvörðun refsingar, sem og til greiðrar játningar ákærða fyrir dómi. Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því horft að ákærði flutti til landsins töluvert magn af kókaíni sem ætlað var til söludreifingar hér á landi.“

Maðurinn var enn fremur dæmdur til að greiða 1,6 milljónir í sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert